Pages

Monday, October 8, 2012


Sæl öllsömul!

Þið verðið að afsaka löngu biðina á nýju bloggi, en til að hafa eitthvað að skrifa um, verð ég að gera eitthvað. Svo núna er það endanlega komið! Og það má ekki ýta á eftir snillingum!

Skólinn er byrjaður aftur, og það er fínt!  rútinan komin í lag, og japanskan öll að bætast! Það er þó allt öðruvísi í japönsku en íslensku!


Skólinn edr byrjaður, hann byrjaði hinsvegar mjög seint, miðað við íslenska skóla, en það er jú öðruvísi system hérna. Það er svona: Skólaárið byrjar í byrjun apríl mánaðar. Síðan er sumarfrí í byrjun júlí, og það stendur fram í september. Svo gengur skólinn sinn gang þangað til í byrjun desember og þá er jólafrí! Og í byrjun janúar tekur við þriðja önnin fram í byrjun mars.
Mjög öðruvísi en kerfinu á Íslandi, en það er nú samt skemmtilegt að prófa þetta.

Veðrir hefur aðeins batnað hérna. Það er mikið skýjað og rignir mikið, en það er vísbending um að árstíðaskipti séu að eiga sér stað. Sem er gott! Ég var orðinn ótrúlega þreyttur á þessari blessuðu sól og 30 stiga hita allan tímann! Núna, sem betur fer, eru bara 25 gráður, yfirleitt, sem er mjög fínt. Er stundum í peysu, og svitna ekki lengur við það eitt að labba í skólan.
Ég er búinn að skipta úr stuttbuxum, yfir í buxur, algjörlega, og það er yndislegt!
Það var þó eitt gott við sumarið og hitann, maður svitnaði svo mikið og sérstaklega þegar ég var úti að hlaupa eða á karate æfingu, þurfti ég varla að hreyfa mig til að svitna. Sem varð að því að ég lagði ótrúlega mikið af í sumarfríinu. Ég get núna stoltur sagts vera 89 kg! En þegar ég fór frá Íslandi var ég 104 kg.  Svo ég er afskaplega sáttur með það, skal ég segja ykkur! Þá er nú spurningin hvort ég nái að halda mér þar þegar ég kem til Íslands... Sjáum til.

September áttunda, fór ég, ásamt Gústav, í Afs námskeið. Eitt af mörgum. Við fórum til Shibuya, og hittum þar stóran hóp afs skiptinema sem við þekktum báðir, og það var afskaplega gaman að hitta suma þeirra aftur! En okkur kom þó skemmtilega á óvart þegar við sáum annan, aðeins minni hóp, skiptinema frá YFU. Gaman að kynnast nýju fólki, sem er að ganga í gegnum það sama og þú. Við eignuðumst fullt af vinum þar.
Hóparnir tveir voru í fyrstu í sitthvoru lagi, því það þorði engin að brjóta ísinn, þó AFS hafi ótal sinnum reynt að troða því í hausinn á okkur, að við ættum að brjóta hann. Þegar við komum að áfangastaðnum var ekki jafn mikil spenna í loftinu og við settumst öll inn í herbergi og kynntum okkur.
Ég var sá eini frá Íslandi, en það var þarna einn danskur skiptinemi sem ég rabbaði við, á dönsku náttúrulega! Sá var hissa á því að Íslendingur gæti talað svon góða dönsku.
Síðan kom fullt af japönskum nemum og okkur var skipt í lið, tveir skiptinemar og tveir japanskir nemendur. Eini tilgangurinn var sá að við áttum að ræða kosti og galla þess að fara sem skiptinemi til annars lands, frekar tilgangslaust. Fyrir utan það að kynnast nýju fólki. Sem var mjög gaman!
Eftir "námskeiðið" fórum við, nokkrir skiptinemar út að borða. Fórum út að borða á ítölskum veitingastað. Afskaplega góður matur! Fékk í fyrsta skipti, síðan ég kom til Japan, alvöru appelsínusafa, en ekki eitthvað þykknis drasl, sem þeir selja í öllum búðum. Það var sko góður dagur! Fór heim með Gústav, eða ekki með honum heim, við vorum samleiða heim. Leiðir okkar skildu síðan við Nerima Eki. Ég fór heim og fór beint í sturtu og svo í rúmið!

Það er eiginlega þannig að sunnudagar eru einu dagar vikunnar þar sem ég get gert eitthvað annað en farið í skólan. Það eru þó yfirleitt ævintýri með Gústav eða AFS námskeið sem taka frá þá einstaka sunnudaga sem ég á. Eða, kósýdagur heima með familíunni. En það er ekkert slak hjá þeim, því það eru flestir alltaf vaknaðir klukkan hálf sex, og ég er þarna einhver Víkingur að vakna klukkan 10.... Líður bara frekar illla yfir því að vakna svona seint, en mér finnst allt í lagi að gera það, vegna þess að alla aðra daga er það 7.

Ég veit ekki hvort ég ætti að vera að skrifa þetta, en ég hef ákveðið að gera það samt. Þetta gerðist í miðjum september mánuði, ég var í rúminu mínu, að lesa bók og var að gera mig til fyrir svefnin, þegar ég heyrði einhverja konu, öskra á einhvern. Ég nuddaði svefninn úr augunum og leit út um gluggann og þá voru nágrannahjónin að rífast á fullum styrk!
Þar sem þau eru japönsk, ættu þau að vita að hvísl heyrist næstum því yfir í næsta hús, því það er allt svo þétt hérna. Þau rifust klukkan 11 um kvöldið, svo það kæmi mér ekki á óvart ef þau hefðu vakið allt hverfið. Ég náði ekki afhverju þau voru að rífast, og mér er í raun sama, en konan öskraði sko á fullum styrk!
Á endanum dó þetta þó út og þau fóru að sofa. Búin að upplýsa öllum í hverfinu um vandamál sín.

Nick, nýji skiptineminn í skólanum mínum, frá Brúney, bauð mér á hálfgert gamecon í Chiba-ken. Ég þáði boðinu með ánægju, enda mjög spenntur fyrir tölvuleikjum.
Þetta var nú meira samansafnið af feitum nördum maður!
Ég held að meðal þyngdin þarna hafi verið yfir 110 kg. og þá er ég að telja horuðu, létt klæddu stelpurnar sem voru að auglýsa básana með.
En það var gaman þarna, og margir leikir sem voru þarna. Fékk meðal annars að vera einn fyrsti Íslendingurinn að prófa FIFA 13, suck on that. Mér er samt sama um þennan leik, hann er ekkert spennandi...
Ég labbaði um og skoðaði ýmislegt drasl og dót sem þar var að finna. Mér til mikillar ónægju, var mikið af feitum nördum sem voru að drífa sig og hlupu, ef mætti kalla það hlaup, um eins og stungnir gríslingar. Þeir ýttu fólki frá sér og reyndu að komast á áfangastað eins hratt og möguleiki var. Því miður voru þeir ekki tilbúnir að mæta mér, því þegar sá fremsti gerði sig til og ætlaði að ýta mér frá, fékk hann því miður olnbogaskot í rifjabúrið. Og ég labbaði í burtu með bros á vor.

Nokkra daga eftir barst mér pakki frá Íslandi. Og í honum var að finna meðal annars, buxur, leik, nammi, dvd og bréf. Ég var agalega glaður að fá hann í hendurnar, ég meina, það er alltaf gaman að fá eitthvað! Ég vil þakka mömmu, pabba, og Stimma litla fyrir þennan yndislega pakka!

OG! síðan má ekki gleyma! Tilhamingju med afmaelid elsku afi.

Stefnir Aegir

Friday, September 7, 2012

Athyglisvert




Undanfarið hef ég ekki lagt nógu mikin metnað í bloggin mín, svo núna ætla ég að leggja meira á mig og reyna að skrifa lengra og betra blogg!
Verði ykkur að góðu.


Sumarið er brátt á enda, og ég get varla lýst gleði minni yfir því! Það var erfitt, heitt og rakt! Það var erfitt að sofna rennandi blautur í svita, rúllandi um í rúminu, með lokuð augu og mýflugur útum allt að sjúga lífið úr löppunum á þér! En ég lifði þetta af. Hunger Games hvað?! Eyðið sumar í Tókyó, gangi ykkur vel!
Það gerðist þó margt ánægjulegt í sumarfríinu, eins og AFS ferðin til Ooshima, þó að hún hafi verið pínu leikskólaleg. Karate gashiku ( þýðir æfingaferð innan klúbbsins), erfið en skemmtileg upplifun. Að vinna ekki þetta sumar, heldur að æfa í karate og leika mér bara alla daga, er ný upplifun fyrir mig. Ekki það að ég kvarti, þetta hefur verið indælt! Svo öll þau ótal skipti sem ég hitti Gústav. Fuji ferðina mikla, sem var ótrúleg. Ég gleymdi líka að segja ykkur frá  "ræðukeppnunum", þetta var svona AFS dót, sem ég tók þátt í. Þetta var nú ekki ræðukeppni í sjálfu sér, því það vann enginn. Í huga mínum var ég samt vinningshafinn... Og engar smá gjafir sem vinningshafinn fékk! En nóg um það!

Ég hef aldrei verið mikið að reyna að miðla hvað mér finnst um drauga og svona dót yfir á annað fólk, en núna er ég bara að skrifa það sem mér finst, og þið veljið svo og hafnið, eftir því hvað hentar ykkur, svo ég ætla aðeins að skrá niður smá sem hefur verið að gerast undanfarið.
Þetta byrjaði allt klukkan 3 um nóttina í sumarfríinu, ég var að lesa og hafði það bara mjög huggulega. Ég lá í rúminu og var orðinn smá þreyttur, en ætlaði að lesa aðeins meira. Nú hugsa sumir, "Guð minn Stefnir, farðu að sofa drengur", "Æjji,,,, bíttíðig".
Ég var semsagt að lesa og heyrði ekki nein fótskref eða neitt, og ef maður vill komast að herbergishurðinni minni án þess að nokkuð heyrist er það ómögulegt! Parkettið hérna er eins og samansafn af sprengjum! Á daginn heyrist bara það venjulega parkett hljóð, á nóttinni, þegar ég ætla að skjótast niður í eldhús að fá mér að drekka, því ég er ekki með vask í herberginu, verð ég svo sannarlega að passa mig, Það liggur við að ég hringi í Tom Cruise og biðji um búnaðinn sem hann notaði þegar hann lék í Mission Impossible. Ég tek eitt skref : BAAAM! "Andskotinn, getur þetta bölvaða parkett ekki þagað einu sinni?", annað skref " BUUUUM", "Aejji, ég gefst upp",,,, BUM, BAM, BAUM,BAEN. Þangað til ég kemst niður, búinn að vekja alla í nágreninu, vegna þess mig langaði í vatnsglas. Nóg um næturferðir mínar hinsvegar.
Ég lá í rúminu, var að lesa, og allt í einu heyrist, "Iiiirrrihiiii", ég leit upp, og sá húninn á hurðinni minni færast hægt og rólega niður, hjartað í mér fraus. "Shit," hugsaði ég og hreyfði mig ekki. Ég leit bara á húninn færast niður. Á endanum var hann alveg niðri, hurðinn opnaðist örlítið, rétt svo nóg til að líta inn í hornið á herbergin, en ekki rúmið, þar sem ég lá, síðan lokaðist hurðin hægt aftur og húnninn færðist upp.
Ég sat lamaður í rúminu, með bókina á maganum, eftir að hafa misst hana úr höndunum. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég átti að höndla þetta, svo ég byrjaði aftur að lesa. Leit hinsvegar nokkuð oft á hurðina, bara til að vera viss um að ekkert væri á seyði. Það sem kom mér líka á óvart var að eftir að hurðin lokaðist, heyrðist ekkert. Engar sprengjur í parkettinu,,,
Síðan gerðist annað skrítið um daginn. Ég og fósturmamma mín vorum ein heima, ég var uppi í herbergi að lesa aðeins, var með kveikt á ljósinu, því að úti var myrkur. Áður en ég stökk niður til að spyrja fósturmömmu mína að einhverju, leit ég við og sá að ljósið var kveikt í herberginu mínu, ég gerði ekkert í því, stökk niður og var þar í 5 min cirka. EN! Þegar ég kom upp aftur var búið að slökkva ljósið. Ég leit inn í herbergið og hugsaði, "Huh, skrítið, ég skildi ljósið eftir kveikt".
Þetta er nú samt gott hús, og ég veit ekki til þess að þau hafi byggt það á fyrrverandi indjána kirkjugarð, svo ég anda aðeins léttar.

Ég fór, fyrir ekki svo löngu síðan, að kíkja á Stefán Sendiherra. Hann var ferskur maður um sextugt, með grásprengt hár, gott orðaval og viðlíkanlega persónuleika. Hann hefur verið sendiherra í Japan síðan ágúst 2008, þrátt fyrir það, kann maðurinn ekki mikla japönsku. Það þarf kannski ekki.
Hann bauð okkur upp á kaffi og vatn, mjög indælt. Við töluðum um notkun vatns á Íslandi, og hvernig það gæti stór breytt Japan, til hins betra. Þetta var umræðuefni sem ég hafði ekki beint mikinn áhuga fyrir, en þetta var umræðan sem var í gangi, og mér fanst ekki beint pennt að rétta úr mér og spyrja: "Jæja Stebbi, hvað er það villtasta sem þú hefur gert?". Það lá einhvern veginn ekki við.
Við töluðum saman í rúman klukkutíma, og mér fanst lúmskt ánægjulegt að tala íslensku aftur. Við kvöddum Sendiherran og löbbuðum af stað heim, eftir að hafa tekið nokkrar myndir.

Á leiðinni heim, hinsvegar, komum við í "Sengaku-ji". Nú hugsa þeir sem ekki lærðu japönsku í grunnskóla, "Hvað er drengurinn að bulla? Er þetta eitthvað DingDong?", nei, þetta er ekki DingDong. Þetta er klaustur þar sem miklir menn eru lagðir til hvíla. Ég skal útskýra aðeins fyrir ykkur.
Um daginn las ég bók sem heitir "47 Ronin", eða fjörutíuogsjö Ronin. Ronin er meistaralaus samurai. Það vita allir hvað Samuraiar voru, það hugsar hvert einasta barn,sem veit pínu um Japan,þegar hann er aðspurðu hvað hann veit, þá er svarað : "Ninjur og Samuraiar koma þaðan!" gott. Samuraiar voru fágaðir bardagamenn undir stjórn einhvers herra. En ekki voru þeir aðeins bardagamenn, heldur áttu líka að æfa Shodo, sem er leið til að skrifa kínversk tákn, með pensl. Semja ljóð og allskonar. En það var mikill herra í grennd við Kyoto sem hataði Edo (Edo var einu sinni það sem í dag kallast Tókíó), það sem hann hataði við Edo var hvernig þeir klæddu sig, hvernig þeir máluðu sig þar, hávaðan og stressið. Þessi Herra, þurfti þó, vegna þess að hann var herra yfir miklu landi, fara til Edo nokkrum sinnum á ári, til að tala við Shogun (Shogun var stríðsherran í Japan þá, leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mig) um eitthvað. Hinsvegar var einn maður í Edo sem var undir Shogun, nefndur Kira. Kira þessi var óheiðarlegur maður og villti alltaf meiri pening í budduna. Hann kúgaði alla sem hann gat, en það gat hann vegna þess að til að tala við Shogun, þurfti maður að panta tíma hjá þessum Kira (auðveldasta leiðin til að útskýra það). Þessi herra hinsvegar var heiðarlegur, og ætlaði sko ekki að láta neinn pening í vasan á Kira. Kira var orðinn mjög stressaður, því ef einn berst á móti, er von á að fleiri berjist á móti, og þá er ekki meiri aukapeningur.
Kira hitti á herran við formlega athöfn þar sem allir hinir herrarnir voru, og Shogun líka. Kira fór að Herranum og móðgaði hann hryllilega. Eftir að hafa traðkað á heiður Herrans, dró Herran fram sverðið sitt og hjó í Kira, Kira datt niður og Herran var tekinn í varðhald. Vegna þess að hann átti land, fékk hann að framkvæma Seppuku (Eða fyrir ykkur sem kalla það Hara Kiri, þá er það nákvæmlega það sama, munurinn er að Japanar segja Seppukku. Útlendingar segja yfirleitt Hara Kiri), hann framkvæmdi það og allir samuraiarnir undir honum urðu reiðir og hefnigjarnir. Þeir stofnuðu strax til samtaka til að drepa Kira, en til að vera ekki of augljósir biður þeir í 2 ár.
Önnur ástæða fyrir því að þeir biður er að Kira var í kastala Shogun, að vinna, en eftir 1 ár var hann leystur af störfum, og fluttur í lítið þorp, hann fékk þó lítinn kastala og menn til að vernda hann.
Aðal samurainn, nefndur Ooishi, lét sig verða að fífli í Kyoto, hann drakk alltaf, fór á hóruhús, en allt til að Kira myndi hætti að njósna um hann. Og eftir 2 ár, gekk það upp.
Þeir hittust allir þá, 47 fyrrverandi samuraiar. Þeir tóku kastalan, piece of cake, huggu hausinn af Kira, og fóru til Sengaku-ji, þar sem Herran er lagður til hvíla, þrifu blóðið af hausnum og settu það á spjót fyrir framan gröf Herrans, til að sýna honum virðingu og líka svo hann gæti lagts til hvíla, endanlega.
Þeir þurftu allir að framkvæma Seppukku, en voru aðeins ánægðir með þáð, því venjulega voru það bara Samuraiar með land og mátt sem fengu að framkvæma það, en þeir voru dæmdir til þess af Shogun.
Í Sengaku-ji, eru þessir 47 menn og Herra þeirra grafðir, og ég kom við þarna um daginn til að kíkja á þetta, og votta þeim virðingu mína, með því að gefa þeim reykelsi, en það er mjög japanskt að gera það.
Eftir að ég las bókina, sagði ég við fósturmömmu mína, að mig langaði soldið að fara þangað, ég bjóst þó ekki við að hún myndi taka mig þangað svo fljótt. Og ég er afar glaður og þakklátur.

Kennarinn sem sér um og mín mál í skólanum, hefur í allri minni skólagöngu hérna úti, talað um einn sérstakan tempura stað, sem hann elskar. Hann segir alltaf: "Stefan, someday I´ll take you to that delicous tempura restaurant", síðan sleikir hann um munninn og brosir, greinilega góðar minningar þaðan. Það gerðist þó á endanum, eftir að hafa heyrt hann tala um þennan blessaða stað, sem er blessaður í hans huga, í milljón skipti, að hann bauð mér þangað.
Við hittumst við Takadanobaba og tókum Taxi.
Maturinn var góður, en ég er ungur, ég vil magn, ekki gæði. Gæðin voru þó til staðar. Staðurinn var fínlegur, ekki stór, hreinn og kokkurinn var skemmtilegur. Eldhúsið og matsalurinn var eitt, og maður gat séð kokkinn elda matinn.
Eftir matinn fórum við í Karíókí, og ég naut mín, og söng með vinum mínum í bítlunum. Söng líka "Sound of silence". Þetta var virkilega skemmtilegt. Ánægjuleg tilbreyting.

Sayounara!

Stefnir Ægir

Tuesday, September 4, 2012

Stutt blogg


Heil og sæl, öllsömul.

Það hefur margt gengið á í sumarríinu og því miður hef ég ekki getað sagt frá því öllu. Ég hef góða hugmynd um hvað ég ætla að skrifa þegar ég er að gera eitthvað allt annað en nákvæmlega það, síðan þegar ég sest fyrir framan tölvuna og ætla að pikka inn blogg þá hef ég ekki hugmynd hvernig ég á að byrja og hvað kemur síðan eftir það. T.d. finnst mér þetta "Heil og sæl" ógeðslega leim, en ég fann ekkert annað. 
Ég á líka eftir að segja ykkur meira frá japönskum venjum og hvernig sumarið er hérna úti, því ég hef lítið greint frá því. Þá kannski fáið þið ekki sjokk þegar þið sjáið japanska ferðamenn gera eitthvað út í hött á veitingastað eða öðrum stöðum. Ég ætla þó að skjóta því inn, að Japanir eru líklegir til alls!
Ekki láta Japana í fínum jakkafötum koma þér á óvart þegar hann dregur fram Yugi Yo kortin sín og spyr þig hvort þú spilir, það gerist.

Borðvenjur:
Japanar hafa allt öðruvísi borðsiði en við Íslendingar, allt öðruvísi!


1. Það er dónalegt að borða hrísgrjón og/eða annað úr disk/skál án þess lyfta disknum/skálinni af borðinu, því það er ósiður að halla sér yfir diskinn/skálina þegar það stendur á borðinu.

2. Ef maður fær núðlur í matinn, hvort sem það er: soba, ramen eða Udon núðlur, er yfirleitt súða með. En þegar maður sýgur núðlurnar upp í sig á maður að vera eins hávaðasamur við að sjúga þær upp. Þetta á líka við súpuna, þar sem þeir nota ekki skeiðar, heldur prjóna og það er erfitt að nota prjóna sem skeið, svo þeir drekkar frá beint frá skálinni. Ef súpan er góð, á maður að drekka hana eins hávaðsamur og maður getur verið, setja hana á borðið, halla sér aftur í sætinu, brosa og gefa frá sér langt og hávært :" AHHHHHHHHHHHH".

3. Það er ekki óalgengt að karlmenn smjatti. Á Íslandi finnst mér að refsing fyrir einhvern sem smjattar ætti að vera hálshöggvun, og það getur stundum farið afskaplega í taugarnar á mér þegar fósturpabbi minn og bróðir byrja að smjatta. Eins hátt og þeir geta.

4. Það má ALDREI stinga tveimur prjónum beint ofan í skál af hrísgrjónum, þetta táknar að hrísgrjónin séu handa þeim dauðu og er þetta því mikill ósiður ef gert og síðan borðað.

5. Það er í lagi að smakka matinn og segja síðan hátt: "OISHI" (Þetta smakkast vel), ef maturinn, í raun, smakkast vel.

Fyrir utan þessa punkta eru borðsiðir að mestu leyti það sama.

Á laugardeginum 1. sept. fór ég og fósturmamma mín að horfa á Súmó æfingu, en það er mjög sjaldan að fólk fær að gera það, svo ekki margir hafa gert það og því er þetta frábært mont efni!
Vöknuðum snemma fórum af stað. Hlakkaði gríðarlega til að sjá þetta, því að það er mjög áhugavert að horfa á feita kalla í bleyju slást.
Þegar ég labbaði inn í súmó herbergið (þar sem þeir æfa), sá ég 10 feita og sveitta Japana æfa sig, sumir voru í súmó hringnum að æfa tækni, sumir voru að gera æfingar og aðrir gláptu á bleyjuðu kallana í súmó hringnum.
Ég verð þó að viðurkenna að eftir þessa upplifunm breyttist viðhorf mitt til súmó mikið. Þeir æfa harkalega og lengi á hverjum degi og hafa bara þriggja daga frí á hverjum degi! Þeir sem eru í neðstu "rönkunum" fá ekki að keppa á sjónvarpi og þurfa að vinna nokkur mót til að komast í sjónvarpsrankann, en þá fá þeir líka meira en eina milljón Yen á mánuði, sem er ekkert smáræði!
Eftir æfinguna, sem var ekkert smáræði, biðum við hellengi í herberginu, vegna þess að súmó kapparnir þurftu að sturta sig og búa til mat. Sat í lótus stellingunni heillengi og labbaði eins og þýsk, sextug götukona, eftir þetta. Hræðilegt!
Súmó kappar borða, á hverjum degi, rétt sem þeir kalla "Chanko". Þetta er samansafn af fitu- og prótínríkum mat. Afskaplega góður á bragðið og ég fékk mér 3 stóra diska, og líka hrísgrjón og tvær skálar af súpu. Súmir kapparnir voru hissa á svip.
Fékk að taka mynd með mér og fyrrverandi meistaranum í súmó. Hérna í Japan er ég frekar stór miðað við fólk, en þessi maður er risi.  En við tókum myndina saman og þegar ég leit yfir hana seinna fanst mér þessi maður minna mig svo mikið á Samma afa.
Fór heim saddur og ánægður. Klukkan 4, samdægurs, gerði ég mig til og fór með fósturmömmu minni á "Matsuri". Matsuri er í raun bara hátíð, en það er sérstök hátíð sem Japanir halda uppa. Yfirleitt er færanlegt shinto klaustur. Og það var! Ofsalega þungt! Ég hélt nánast allan tíman og fékk svo sannarlega að finna fyrir því daginn eftir, því axlirnar mínar voru að drepast!
Við löbbuðum með "klaustrið" í 4 klukkutíma, en tókum oft pásu, til að drekka vatn, eða bjór ef þú hefur aldur og sumir reyktu, æðislegt. Mjög gaman. Eftir það var okkur boðið upp á Körrí og hrísgrjón og ég át fimm diska, djöfull var ég svangur.

Ég veit ekki hvenær næsta blogg kemur út. Ég get þó sagt að það komi út í framtíðinni...

Stefnir Ægir

Ps. mer finst eins og bloggin styttist alltaf meira og meira, synd. 





Monday, August 27, 2012

Herra Fuji


Góðan daginn öllsömul.

Það hefur ýmislegt gengið á núna hérna í Japan, enda engin skóli til að trufla mig hehe :D Ég hef meðal annars klifrað Mt.Fuji, stundað karate mjög mikið, heimsótt hóst frænkur og ömmur og ýmislegt annað. En það er nú samt ýmislegt sem ég á eftir, t.d. fer ég með hóst pabba mínum að horfa á feita kalla í brók glíma laugardaginn klukkan 8 um morgunin, síðan eftir það er ég að fara að bera færanlegt klaustur í 4 tíma, en það er mjög merkilegt. Þetta er svona hátíð og þá bera þeir klaustur.... japanskt eitthvað.. Hlakka nú samt ótrúlega til, því að þetta er spes japanskt og vonandi næ ég að taka eitthvað af myndum handa ykkur ;)

Og ég var víst að eignast lítinn hóst bróðir á Íslandi sem býr núna í herberginu mínu :D Ég óska honum vellíðunar í frjálsu landi (miðað við Japan).

Áður en við keyrðum að Mt.Fuji, skelltum við okkur í heimsókn til frænku og ömmu. Þær voru hressar og ausuðu í mig mat, þurftu að rúlla mér um í húsinu, sem er synd, vegna þess að amma er gömul kona. Við vorum þarna öll, ég, fóstur mamma, fóstur bróðir og fóstur pabbi. Það var gaman, en ég las mikið í bók og talaði mikið við þau. Japanskan er öll að koma. Gerðum í raun ekkert merkilegt, fyrir utan það að fara í búð að kaupa inn og svona. En síðan á þriðja deginum var eldflauga partý í bænum. Svo ég og fósturbróðir minn fórum að kíkja á eldflaugana og þeir voru ótrúlega flottir! Miklu stærri en gerist á Íslandi. Þetta er eins og að bera saman vel eldað lambalæri með grænum baunum, brúnni sósu og sykruðum kartöflum við nýlagðan hundaskít. Með allri virðingu fyrir hundaskít.

Daginn eftir vöknuðum við klukkan 8, borðuðum morgunmat og tókum okkur til. Lögðum af stað til Fuji klukkan 9:30. Ég las Svartur á leik á meðan og náði næstum því að klára hana áður en við komum að fjallinu, sem var synd, útskýring kemur seinna.  Við vorum að keyra upp stöðirnar þegar við þurftum allt í einu að stoppa, "ó nei" sagði fóstur bróðir minn og ég leit upp úr bókinni og sá heljarinnar lengju af bílum. Ég held að við biðum í 3 klukkutíma bara í þessari bílalengju. Hann var nú samt með dvd tæki og ég horfði á "Rise of the planet of apes", afskaplega fín mynd. Kláraði hana, og kláraði síðan bókina. Og þá loksins (hehe ;)) lagði hann bílnum á fimmtu stöð, en bílar og rútur komast ekki lengra. Það er í cirka 2300 metra hæð, eða þar um bil. Við fengum okkur að borða þarna, körrí með cutlas, ágætt á bragðið, en það var samt ekki jafn gott og þegar fósturmamma mín gerir það.
Eftir matinn ákvað ég að skoða mig aðeins um og skoða hvernig minjagripi er hægt að kaupa, það var meðal annars vatn frá Fuji, og alls konar skrítnir hlutir, en það skrítnasta sem hægt var að kaupa þá var, loft. Já, bara venjulegt loft í flösku, og það var mjög dýrt. Ég gat ekki gert annað en hlegið og labbað í burtu með kjánahroll.
Loftið þarna var ótrúlega hreint og kælt, allt annað en Tókíó loftið. Það var ekki rakt þarna, sem var skemmtileg tilbreyting!
Við byrjuðum að klifra klukkan 5, eftir að hafa hvílt okkur aðeins í bílnum. Ég var klæddur stuttbuxum og bol og það var geðveikt. Var í hlaupaskóm og var pínu smeykur, en það gekk ótrúlega vel. Þó ég hefði getað, hefði ég ekki viljað skipta um skó. Léttir og þægilegir þegar maður labbar upp á við, fimir og góðir þegar maður þarf að hoppa í grjótinu og svoleiðis.
Gangan upp á við gekk ótrúlega vel og ég var hissa á því hvað þetta var létt!
Það var GEÐVEIKT veður allan tíman! Ég var gríðarlega heppinn! Það var hægt að sjá Tókíó allan tíman og það er mjög sjaldgæft. Við stoppuðum oft og hvíldum okkur og átum osenbe og snickers og drukkum íþróttadrykki. Fósturbróðir minn sagði mér oft að hægja ferðina því að okkur gekk svo vel að klifra og við vorum langt á undan áætlun. En ætlunin er að sjá sólarupprás frá Fuji. Við lögðum af stað klukkan 5 að kvöldi til og komum á toppinn um miðnætti og biðum eftir sólarupprás. Í cirka 3300 m hæð klæddi ég mig í lopapeysuna sem hún amma mín gaf mér, "Takk amma mín, hún kom sér af afskaplega góðum notum".
Á leiðinni upp var mikið af fólki með brúsa fullum af súrefni, því að þau voru greinilega að fá of lítið súrefni, ég fann þó ekki mikinn mun á loftinu þarna, fyrir utan það að það minnti mig mjög mikið á íslenskt loft! Það var meiri að segja einn kauði sem var að klifra upp fjallið í skólabúningnum sínum,,, vitleysingar!
Ég þurfti að fara á klósettið og borgaði heil 200 yen fyrir klósett ferðina, sem hefði verið í góðu lagi ef klósettið hefði ekki verið eins og svínastía með hlandlykt í! Ég kom mér fyrir við pissuskálinni og þá labbaði kona framhjá mér, þetta var unisex klósett. Djöfulsins vitleysa.

Við náðum toppnum og þar var sko kalt. En uppi á toppnum get ég ekki sagt að ég hafi verið beinlínis hissa, en mér kom skemmtilega á óvart þegar ég sá tvo drykkjar sjálfsala á toppnum.
Nóttin var lengi að líða og það var ótrúlega kalt. Við vorum samt með langbestu sætin og það var vel þess virði. Við hliðin á mér sat drengur á tvítugsaldri frá Noreg og stelpa á sama aldri frá Frakklandi. VIð töluðum heillengi saman og það var gaman að tala við þau.
Sólarupprásin var ótrúlega falleg, svo falleg meiri að segja að sumir kallarnir fyrir aftan okkur byrjuðu að gráta, og konurnar þeirra byrjuðu að hugga þá...Kommon! Það er sólarupprás á hverjum degi!
Gangan niður var erfiðari en gangan upp, hnéin á mér fengu skrítna tilfinningu eftir smá tíma. Ég klæddi mig fljótlega úr lopapeysunni og buxunum, því það var svo heitt.
Við keyrðum síðan í burtu og stefndum beint á onsen! En það er eins og heitir pottar.
Það var ótrúlega gott að fara í heitapottana eftir þessa reynslu. Fór í gufubað, ísbað og síðan eldheita potta og allskonar! Geðveikt!
Fengum okkur að borða eftir á, sem var ótrúlega gott, því við vorum bara búnir að borða kex og snickers og svona í 24 tíma, og þá var svengdind farin að segja til sín!
Ég steinsofnaði á leiðinni hein og rumskaði ekki! Aumingja fóstur bróðir minn keyrði alla leiðina heim, dauðþreyttur. En heima kom okkur skemmtilega ó óvart þegar það var pizza í matinn, sem gerist jafn sjaldan og pávinn stundar kynlíf.
Pizzan var gómsæt og ég var þreyttur eftir þetta ævintýri, svo ég fór að sofa, þá var klukkan 9 og svaf í góða 10 klukkutíma.

Þetta var æðislegt alveg hreint! Hefði ekki getað verið ánægðari með þessa reynslu!

Stefnir Ægir

Ps. Meira bráðum, veit nú samt ekki hvenær. Kannski eftir 2 vikur, sjáum til!