Pages

Monday, July 23, 2012

Ferdir!


Góðan dag!
Dagurinn í dag er 17. júlí, svo þetta er skrifað fyrir soldið löngu síðan, ég ætla þó a' skrifa nokkur blogg yfir sumarið svo ég gleymi örugglega engu, og svo ég verði tilbúinn með nokkur þegar skólinn byrjar.

Hér á dögunum fór ég til Nagano-ken, sem liggur ekki langt frá Tokyo, um það bil 3 tímar í rútu.
Ég og Okaasan gerðum okkur til fimmtudagsmorgunin, hafði pakkað kvöldið fyrir, svo ég var tilbúinn, og síðan lögðum við af stað til Shinjuku-eki(station). Þar lá aðeins og freistandi ísbúð, og ég keypti mér ís, og hann var mjög góður. Af gerðinni, Haagen-Dazs. Svo var farið af stað með rútunni. Ég svitnaði mjög mikið og hefði ábyggilega getað selt eins lítra flöskur af svita og stórgrætt. Ef fólk vill svita í einslítra flöskum má það endilega hafa samband.
Rútu ferðin var ágæt, ágætis útsýni, rútan var kæld og ég var með góða bók. Við stigum svo út úr rútunni í einhverjum bæ, sem ég man ekki hvað heitir, en í honum fæddist fósturmamma mín og ólst upp. Þetta var týpískur japanskur bær, stór bær, þröngar götur, lítið fólk, litlir bílar, lítil hús og síðan stór tjörn í miðjunni. Við löbbuðum svo að húsi Obaachan(ömmu) og fórum inn til hennar. Okaasan sýndi mér allt húsið og rak ég hausinn í dyragættir og skápa oftar en einu sinni, þetta hús hefur annaðhvort verið byggt í venjulegri stærð og sokkið um kannski 1 meter, eða byggt svona afskaplega lítið. Mig þykir seinni valmöguleikinn líklegri. Við fórum síðan, Okaasan, Obaachan og ég, með bólginn og bláan haus, til Obachan(takið eftir! Obachan er frænka mans, á meðan Obaachan, með tveimur a'um er amma). Hún bjó hinsvegar í mjög stóru húsi, með fullt af tatami herbergjum, stóru eldhúsi og stofu líka. Ég held að hæsti maður Japans hafi mögulega átt heima þarna einu sinni...
Obachan bjó til æðislegan mat og við borðuðum af bestu lyst. Eftir matinn sátum við og spjölluðum og höfðum kósý. Síðan sló klukkan 9 og þá kominn tími til að fara í bað. Sturtan(Maður verður að fara í sturtu fyrst, áður en maður fer í baðið hérna úti. Þetta er gert til að skíta ekki vatnið út svo aðrir geti notað það á eftir þér, síðan er það notað í þvott eða annað gagnlegt) var annaðhvort ísköld eða drulluheit svo ég beit tönnunum saman og valdi ískalda sturtu, því baðið er jú heitt. Eftir sturtuna, sem var ísköld, og frekar óþægileg, var komið að baðinu. Ég ungur og vitlaus stökk beint í baðið og sestist. Síðan, eftir svona þrjár sekúndur í baðinu, sló eitthvað klikk í heilanum á mér, og öll taugakerfin í líkamanum sendu sömu skilaboð að heilanum í einu, ef taugakerfi gætu skrifað á blað, færu skilaboðin nokkurn vegin svona: " Viltu drulla þér uppúr vatninu drengur! Vatnið er skaðbrenndandi heitt og þú ert búinn að vera hér í heilar þrjár sekúndur, vertu fljótur!". Ég skaut hendinni uppúr baðinu og greip um eitthvað til að hífa mig upp, náði taki og heif mig uppúr baðinu, og lenti á gólfinu. Másandi og blásandi lá ég á gólfinu í nokkrar sekúndur, til að reyna að átta mig á klaufaskap mínum. Það rann síðan upp fyrir mér að ég hefði átt að tékka á hitanum á vatninu, þvílíkur klaufaskapur! Deginum lauk síðan með því að ég lagðist á futon dýnuna mína og lokaði augunum, og þá kom Óli Lokbrá og dustaði svefn dufti á mig.
Ég vaknaði og fór niður og fékk mér morgunmat, leist þó ekki beint á blikuna þegar ég sá að það var steikt síld, óskorin, haus og alles. Svo var eitthvað þarna líka sem maður myndi borða í kvöldmat. Síldin var bragðgóð og smakkaðist af síld.
Við fórum svo að heimsækja gröf Ojiichan(Afi) og fyrrverandi mann hennar Obachan (Frænku), við fórum með leigubíl, því að "kirkju"garðurinn þarna var uppi í fjöllunum, með mikinn og þéttsetinn skóg í kring, og fallegt útsýni yfir bæinn. Við þrifum gröfina(Allir sem látast í Japan eru brenndir og krukkurnar komnar fyrir undir gröfinni, alls geta verið átta urnir undir einni gröf, góð leið til að spara pláss, og liggja við hliðin á ástvinum sínum, það sem eftir er), kveiktum á ilmkertum og þökkuðum guði fyrir að vera á lífi held ég.
Daginn eftir var komið að mér og Okaasan að fara heim, en fyrst fengum við þó fullt af heimaræktuðu grænmeti frá Obachan(frænku), til ap bera heim. Rútan var ágæt, ég var þó búinn að klára bókina og hafði  því ekkert betra að gera en að hlusta á tónlist og horfa útum gluggan. Þegar við komum að Tokyo var síðan tilkynnt að við yrðum klukkustund lengur á leiðinni. Þá varð ég pínu pirraður, og sveittur. Síðan þegar við komum að stoppistöðunni, einum og hálfum klukkutíma of seint, var svo mikill mannfjöldi þarna, meiri pirringur og sviti. Við náðum þó að komast heim ósködduð! Sveitt, en ósködduð.

Ég fékk um daginn að vita að ég get farið í tölvu í skólanum þó svo að sumarfríið sé, því að bóksafnið er víst alltaf opið, svo ég get hent inn nokkrum bloggum í gegnum sumarfríið, það verður þó ekki oft, því ég hef hreinlega betri hluti að gera en hanga í tölvunni. Þið heyrðuð rétt gott fólk, tölvufíkillinn Stefnir hefur betri hluti að gera, og lætur ekki sjónvarpið né tölvuna stjórna lífinu sinu!

Ég kom heim í gær frá mjög góðri, þriggja daga fjölskylduferð til Miyagi-ken og Fukushima-ken. Ég sat í bíl mest alla ferðina, en tíminn var vel nýttur og ég náði að lesa "Norwegian Wood" eftir "Haruki Murakami" sem er einn fremsti rithöfundur Japana og hefur skrifað margar "best seller´s" eins og þeir kalla það þarna fyrir vestan. Bókin fékk þó að liggja þegar náttúran í Japan fór að sýna sig, og hún er afskaplega falleg. Mikið af trjáfylltum fjöllum, blómum, runnum og öðru grænu. Við stoppuðum svo í einhverjum bæ sem heitir eitthvað, þar sem ég og mamma fórum í skoðunarferð með ferju. Á meðan lagði pabbi sig í bílnum. Ég fór strax á aðra hæð í ferjunni og mér brá heldur í brún þegar fjöldan allann af fuglum sem eltu ferjuna. Á ferjunni selja þeir einhverskonar rækjusnakk sem menn gefa fuglunum sérstaklega, og þeir eru ekki feimnir við að bíta í puttann þegar þú réttir framm snakkið. Ég náði nokkrum fínum myndum af mér og þessum fuglum og fer það inn á Facebook, svo þeir sem vilja geta skoðað það þar. Við sigldum í gegnum eyjaklasa sem spilaði stóra rullu á síðasta ári þegar flóðbylgjan skall á Japan. Eyjurnar tóku á sig mest allann skaðann og bærinn slapp með naumindum. Þó voru nokkur hús sem bleyttust og þurfti að endurbyggja þau, er mér skilst.
Við heilsuðum upp á nánast alla úr fjölskyldunni hans Pabba, því hann er frá þessu svæði og við komum líka við gröf mömmu hans og pabbi og gerðum hana fína og heiðruðum þau, með því að hella einhverju gosi og sake yfir grafsteininn. Mamman elskaði víst þetta gos og pabbinn fanst Sake gott, svo því var hellt yfir grafsteinninn. Við gistum á risastóru hóteli. Það var mjög amerískt, fyrir utan herbergin, það voru tatami herbergi þar, sem er ekki mjög amerískt... Það var sundlaug og "heitir pottar" og ég veit ekki hvað. Við fórum í heita pottinn, kynjaskipt og maður kviknakinn og eftir var matur. Maturinn var helvíti skrítinn... Ég ætla ekki að segja að hann hafi verið vondur, en ekki góður heldur. Það var allt of mikið af hráum fisk og sækvikindum. Þetta var nú samt fínt.
Daginn eftir keyrðum við meira og hittum meira frændfólk. Bróðir minn bættist síðan í hópinn eftir að við vorum komin á hótelið. Við fórum í pottinn, en! það var pottur fyrir karlar og konur, og síðan einn fyrir bæði karla og konur, fyrst fórum við í karla pottinn, síðan fór ég og bróðir minn í bæði karla og konupottinn, afskaplega afslappandi! Í svona 100m fjarlægð frá hótelinu var annar bæði karla og konupottur, sem lá alveg við á sem hægt er að synda í. Ég og bróðir minn fórum strax þangað og fórum í pottinn, síðan í ánna og héldum þannig áfram þangað til við vorum orðnir ískaldir en heitir á sama tíma, mjög góð tilfinning! Gokurakudatta!
Maturinn á seinni hótelinu var mikið skárri en á því fyrri, og ég drakk coke með. Fór að sofa saddur og heitur og kaldur á sama tíma!
Ég og bróðir minn vöknuðum snemma og fórum aftur á sama stað og  fórum í pottinn og ánna síðan eftir á. Frá hótelinu er hægt að sjá "pottinn" og ánna mjög vel, þetta er svona 20 m frá hótelinu. Ég gleymdi víst að nefna að maður verður líka að vera nakinn í þessum pott, og við höfðum ekki fyrir því að skella okkur í neitt svo við syntum í ánni naktir. En það virðist vera allt í lagi hérna...

Ég er orðinn þreyttur og ætla því að hætta að skrifa og setja þetta inn á netið. Ég vona að þið skemmtuð ykkur við að lesa þetta blogg, og bara svo þið vitið, þá er alltaf gaman að fá comment :D Ég get þó alveg verið án commentum sem hljóma einhvernveginn svona:
"Stefnir, íslenskan þín er hræðileg! Hvernig væri að þú myndir kaupa þér orðabók, kíkja í hana af og til og skrifa síðan almennilega?" eða " Vááááá, gaur..... þetta sökkar". Ekki það að ég hafi verið að fá svona comment, langt frá því.

Stefnir Ægir Kyntröll Stefánsson

Friday, July 6, 2012

Afmaeli, afmaeli! :D


Sæl öll

Mér finst þið alveg eiga skilið að fá eitt blogg áður en sumarfríið byrjar, því að þá kemst ég ekki í net og án þess er erfitt að setja eitthvað á netið. Ég byrja síðan aftur í skólanum í september með glænýjar og brakandi ferskar sögur héðan. Spurningin er þó, hvað á ég að skrifa um núna? Satt best að segja veit ég það ekki sjálfur, ég reyni þó hehe.

Núna undanfarna daga hefur verið óþægilega heitt, ég ligg sveittur uppi í rúmi á hverju kvöldi, og það er ekkert ánægjulegt við það! Hitinn er óbærilegur, rakinn hérna nær hátt upp í 75%, sem er skelfilegt. Hitinn nær alveg 30 gráðum og sólin skín hátt á himni. Bara það að labba í skólan er maraþon, ég er í stuttbuxum og á bolnum, vesalings jakkafata karlarnir. Það er sko nóg af þeim hérna.
Ef maður labbar inn í búð, banka eða annað með einhvers konar kælingartæki sem guðarnir sendu, má líkja því við að stíga fram af brún sólarinnar og stökkva í ísbað, og síðan öfugt þegar þú labbar út. Ef þið haldið að ég sé eitthvað að grínast með þennan hita er ykkur velkomið að detta inn í kaffi og skonsur, og jafnvel hráan fisk ef ég er í skapi til þess.

Tíminn líður þó óbærilega hratt hérna úti og ég skil ekki að 1/3 af dvölinni minni er búin, það er svo margt búið að gerast, ýmist yndislegt og ekki svo yndislegt, en ég get þó ekki annað sagt en að ég hef þroskast mikið á þessum 3 og næstum því hálfum mánuði sem ég er búinn að vera hérna úti. Er meiri að segja byrjaður að segja já við kaffi þegar fullorðna fólkið býður mér, ef það er ekki það að vera fullorðinn, veit ég ekki hvað er.

Það er því miður allt morandi í litlum djöflum hérna úti! Ég er ekki að tala um asíubúana, nei.... heldur kakkalakka. Litlar viðbjóðar sem stelast í matinn þinn þegar þú ert við annað látinn, eins og að drepa bróðir hans eða álíka. Ég hef lent í áras eins þeirra í herberginu mínu, ég skal deila sögunni minni af þeirri áras. Þetta er þó ekki ætlað óléttum konum né gömlu fólki. Sérstaklega ekki kakkalökkum!
Það var heit nótt, ég leit út um gluggan og sá ljósið frá eldingu koma  og fara eins fljótt og það kom. Ég var að búa mig undir svefninn, var búinn að fara í bað og hreinsa af mér óhreinindin, bursta í mér tennurnar og nýbuinn að raka stubbana sem myndast þriggja daga fresti(Hvað sagði ég um að vera fullorðinn, ha?). Ég settist við skrifborðið mitt, tók svörtu bókina og byrjaði að skrifa hvað ég gerði í dag. Lokaði henni og geispaði, dauðþreyttur eftir langan og heitan dag. Gluggarnir voru báðir, þó með netrennuna fyrir svo flugurnar fljúgi ekki inn í herbergið og sjúgi úr mér allt blóðið(Það virðist samt ekki stoppa þær, talandi um litla djöfla!). Ábreiðan af rúminu fékk að fljúga á sinn vanalega stað þar sem hún sefur á nóttinni, þar til hún verndar rúmið mitt fyrir litlum djöflum á daginn. Ég stóð upp úr rúminu, gleymdi að draga fyrir gluggann fyrir ofan rúmið, teygði höndina að gardínunni nær skrifborðið, lokaði lófanum um hana og þá gerðist allt mjög hratt. Ég heyrði lítið skrjáf og fann eitthvað á hendinni minni, ég leit letilega á höndina og sá djöfulinn sjálfan á hendi mér, í formi kakkalakka. Ég stóð kyrr eitt andartak og leit á kakkalakkann, og hann á mig. Hann brosti, blikkaði mig og dróg fram risastórt tvíhennt sverð og hjó af mér hendina, rétt fyrir neðan olnboga, ég horfði á hendina mína detta á gólfið og leit á stubbinn, kakkalakkinn stóð ennþá á stubbnum og gaf mér fingurkoss, þó hann hafði enga fingur.
Ég er að grínast! Hann dró fram haglabyssu, sagði "SAY HELLO TO MY LITTLE FRIEND", og skaut ítrekað í loftið og hvarf síðan, skildi aðeins eftir stafinn "Z" í gardínunni.
Hann stökk á hendina á mér og ég í panikki dró hana fast að mér, greyjið datt á gólfið og byrjaði að væla. Stefnir Kakkalakkabani lét þó ekki á sér standa og fann ruslatunnuna sína, lokkaði gerpið í gildruna og það heppnaðist. Það skrjáfaði mikið í ruslapokanum, en eftir dass af handspritti og flösku til að kremja greyjið heyrðist ekkert meira þessa nótt, fyrir utan hljómsveitina sem spilaði þema-lagið mitt. Svona stóð til að ég fékk nafnið, Stefnir Kakkalakkabani. Áður en ég sofnaði, hvíslaði ég "Hasta La Vista, kakkalakki".


Þetta blogg er þó til að heiðra pabba mínum sem verður orðinn 44 ára þegar þetta blogg byrtist ykkur, til hamingju með afmælið pabbi minn, ég vona að hafir átt skemmtilegan og ánægjulegan afmælisdag. Fullan af kaffi og svona fullorðinsdóti. Ég verð heima á næsta ári tilbúinn að syngja og senda þig á elliheimili, því 45 ár er jú helvíti mikið!

Síðan ég kom til Japan hef ég verið að lesa mjög mikið, ýmist til skemmtunar og stytta mér tíma þegar ég hef ekkert betra að gera, ég hef lesið ótal bóka eftir Agatha Christie, eina eftir Oscar Wilde, og fleiri sem ég man ekki alveg hver skrifaði, það er nefninlega einn kennari sem er svo skemmtilegur að lána mér bækur, sem ég les á engri stund, en núna hef ég fundið annann bókaflokk eftir engan annan en George R. R. Martin, A song of fire and ice heitir þessu bókaflokkur og fjallar um það sem hann velur að skrifa, sem er hvað sem er. Hann er óhræddur við að drepa aðalpersónuna og ekki lengi að finna sér nýja. Í augnablikinu eru 5 bækur í þessum flokk. Ég er kominn vel inn í þriðju bók, og þetta er svo æsispennandi, get varla látið bókina frá mér.

Ég vona að þið hafið skemmt ykkur vel við að lesa bloggið mitt, og ég vona að þið eigið eftir að skemmta ykkur enn betur í framtíðinni þegar þau verða fleiri. Þegar ég skoða tölurnar um hversu margir koma og skoða síðuna fyllist ég stolti, þetta gæti þó bara verið Eyrún eða mamma að tékka eftir nýju bloggi á korters fresti, en ég efa það. Það er gaman að deila með ykkur hvað ég er að gera, og náttúrulega skemmtilegt að skrifa um sjálfan sig, mjög skemmtilegt!

Stefnir Ægir Stefánsson

Monday, July 2, 2012

Get eg radid einhvern i vinnu til ad bua til titla ?


Sæl og blessuð öll sömul :D

Já eins og þið hafið vonandi tekið eftir, er ég kominn med íslenska stafi núna. Ég er líka að skrifa þetta i tölvunni heima hjá mér. Get loksins fært öll gögn milli tölvunar heima og í skólanum, því ég er ekki með net heima.
Þvílík gleði, myndirnar komnar inn á netið og ég get bloggað heim :D
Það er nú samt skrítið að venjast íslenska lyklaborðinu aftur, þegar maður hefur pikkad a enskt lyklaborð í eina þrjá mánuði, svo þið fyrirgefið mér vonandi ef ég gleymi nokkrum eða geri skyssu.

Ímynd Japana áður en ég fór til Japan er heldur breytt eftir þriggja mánaða dvöl hérna. Þegar ég var ennþá á Fróni, rétt áðuren ég fór út, átti fólk það til að koma til mín og byrja að segja: "Konnichiwa", "Sayounara", "Hentai" og önnur orð a japönsku, og síðan byrjaði það að tala í tungum og froðufella. Auðvitad stóð ég brosandi og hlægjandi og sagði: "Já, hahaha. Flottur", en innan í mér var ég hægt að deyja. Þegar ég hugsa til baka finst mér þetta pínu fyndið, samt ekki. En auðvitað sögðu allir við mig að þjóðaríþrótt þeirra væri Karíókí, það er reyndar ekki alveg rétt, Súmó glíma er það, en ég verð þó að viðurkenna að ég var ekki alveg að treysta þessum sögum algerlega um karíókíið. Þetta er þó satt! Þeir stunda karíókíið af fullum krafti eða fullum hálsi. Þeir fara oft úr vinnunni á miðvikudagskvöldi, fara á barinn með drykkjufélugunum og fá sér einn eða tvo bjóra, sem er alveg nóg fyrir flesta Jalla til að detta vel í það. Eftir barinn er ferðinni heitið í karíókí stúdíóið. Þar leigja þeir herbergi, og geta sungið eins hátt og illa og þeir geta. Eftir öskrið drífa þeir sig heim, en á leiðinni finna sumir fyrir magapínu og allt kemur upp aftur. Lítil gjöf fyrir fólkið sem þarf að drífa sig í vinnunna og skólan daginn eftir. Á miðvikudagsmorgnum sé ég stundum góðar sléttur.  En aðallega á laugardagsmorgnum.
Súmó glíma er ekki jafn einföld og ég hélt fyrst, ég hélt að þetta væru tvær fitabollur sem ættu að reyna að fella hvort annað og sá sem fór niður fyrst tapaði. En nei ! Það þarf að flækja þetta eins og allt annað í heiminum.... Þeir þurfa að koma sér fyrir, og síðan standa upp, fara  út fyrir hringin, klóra sér í pungnum, þurrka ímyndaðan svita af enninu og kasta hveiti(Held ég) yfir hringinn og endurtaka nokkrum sinnum áður en bardaginn hefst, sem stendur vanalega í svona 10 sek. Þó að súmó glíma sé þjóðaríþrótt Japana er meistarinn þó mongólskur. Súmó er þó ekkki svo mikið stunduð, ég held aðallega vegna þess að Japanir eru svo litlir, eða hafa bara misst áhugan á því að knúsa annan mann í engum fatnaði fyrir utan brók sem felur varla neitt. Það kemur þér sennilega á óvart þegar ég segi þér að hafnarbolti er vinsælasta íþrótt Japana. Meiri að segja fyrir seinni heimsstyrjöld var þetta gríðarlega vinsæl íþrótt hérna.

Karate þjálfanir eru mjög harðar. Við mætum eftir skóla og klæðum okkur í "dogíið" (búningin), förum síðan niður í "dojoið" og náum i dýnurnar undir þjálfunina, (við notum mjög þunnar dýnur undir okkar svo að við meiðum okkur ekki í fótunum þegar við þjálfum) síðan er teygt á, og eftir það byrjar æfingin. Það fer eftir dögum hvað við gerum. Mánudaga erum við einir að þjálfa okkur, þriðjudögum kemur senpai sem er áttræður kall,  í fáranlega góðu formi, lítur út eins og hann gæti verið sextugur! Á miðvikudögum er engin æfing. Þriðjudaginn erum við einir að þjálfa aftur. Föstudagar kemur senpainn aftur, yfirleitt þjálfun tæknis þá, og hraða. Laugardagar eru skelfilegir! Þá kemur annar senpai (Senpai er japanskt orð yfir persónu sem er eldri og hefur meiri reynslu en þú í þessari ákveðnu grein), hann er yfirþjálfarinn okkar. Um fertugt. Karate þjálfunin er í 2 og hálfan tíma og við fáum okkur að drekka svona að meðaltali tvisvar yfir hverja æfingu, það skal tekið fram að hér er mjög heitt og rakt. Laugardags þjálfarinn er þó svo góð sál að leyfa okkur það ekki. Og síðan eru náttúrulega 50 armbeygjur á hnúunum. Þetta er nú samt gaman :D Og ég get ekki kvartað !

Dagarnir mínir hérna úti eru þétt setnir og þarf fólk því að panta mig langt fram í tíman til að gera eitthvad með mér, mánudagar er skóli og síðan karate, þá kem ég heim klukkan 7, þannig er það í ruan alveg fram að föstudag. Laugardagar eru aðeins betri, skóli til klukkan 12 og síðan drulluerfið karate æfing til klukkan 4. Miðvikudagar eru náttúrulega helgidagar líka, þá er tvöfaldur japönsku tími og síðan hádegismatur í boði Nónaka sensei, þá förum við í bakaríið þar sem við segjum hvort öðrum dónabrandara og flissum eins og smástelpur. Öðrum til mikilla gremju, hver vill sjá sextugan mann bjóða 18 ára strák hádegismat, svo þeir geti sagt hvort öðrum groddalega brandara? Það er gott að það skilji svona fáir ensku hérna, það hefði ábyggilega margur maðurinn spýtt úr sér kaffinu, skorið af sér eyrun og gerst múnkur hefði þeir skilið okkur.

Á dögunum barst mér agalega flottur pakki frá Íslandi, þar var meðal afmælisgjöf og nammi, það var engin önnur en hún Eyrún mín sem sendi þann pakka. Agalega kom það sér vel :D Takk Eyrun mín, og Magnús og Magnús.
Og ekki seinna en fyrir nokkrum dögum fékk ég annan,  þessi kom frá mömmu og pabba og Stimma, og þar var engin annar en Bubbi sjálfur og auðvitað nammi ! Þakka ykkur kærlega :D

Sumarfríið er alveg handan við hornið, það er að vísu að öðruvísi sniði en á Íslandi. Það byrjar hérna í miðjum júlí, eftir prófin og er fram í september. Það verður svo sannarlega mikið á minni könnu þegar það byrjar. Karate æfingar á hverjum degi fyrir utan helgarnar. Heimsókn í uppeldisþorp foreldra minna, AFS búðir í Oshima, sem er eyja þar sem 20 AFS nemar sem eru í Tokyo og þar nálægt koma saman, þar verða líka krakkar úr menntaskóla til að gera þetta eitthvad skemmtilegra, og síðan er auðvitað ferðinni heitið í fjallaklifur. Mt. Fuji bíður eftir mér. Sumarið verður heitt en ábyggilega mjög fljótt að líða, því ég hef nóg að gera. Skrítið að fara ekki að vinna í sumarfríinu. En það verður nóg að vinna þegar ég kem til Íslands aftur.

Mér líður mjög vel hérna úti, það eru allir mjög vingjarnlegir, en halda sig mest af öllu við sinn klúbb. Bekkurinn minn er mjög fínn, 40 krakkar, fyrir utan mig. Alltaf í matarpásunum fer ég og nokkrir aðrar strákar að gera einhverja íþrótt, núna er blak, það er mjög gaman!
Í skólanum eru margir gamlir kennarar, og sá elsti er 67 ára. ´í Waseda fara kennarar á eftirlaun 70 ára. Það er ekkert merkilegt við þennan kennara annað en það að hann er algjörlega kolvitlaust helvíti! Hann er fótbolta kennari, ég ætla ekki að nefna hann á nafn, það væri grimmilegt. Hann kennir mér meðal annars fótbolta, ef það má yfirhöfuð kalla þetta fótbolta. Hann er lítill, hokinn í bakið, ljótur í framan og með blátt hár. Algjört sjarmatröll! Fyrir utan það að vera svona fallegur og skemmtilegur er hann kóngur dónabrandara, hann á það til að draga einn strák úr hópnum meðan hann er að "kenna" og segja honum dónabrandara, á meðan hinir krakkarnir vorkenna greyinu sem þurfti að þola það að hlusta á hann og þykjast hlægja og jánka þegar það á við. Þegar við förum niður á völlinn, stillum við okkur allir upp í röð og þá skráir hann hverjir eru mættir og hverjir ekki, síðan byrjar ballið. Það eina sem þessi "kennari" hefur reynt að "kenna" okkur yfir önnina er hvernig maður á að sparka bolta. Alltaf það sama. Hvernig maður á að sparka í bolta. Náðuð þið þessu? Hann er að kenna 16 ára piltum hvernig maður sparkar í bolta. Hann biður okkur koma að sér, velur einn úr hópnum, sparkar boltanum til hans og biður hann svo sparka boltanum að sér, en ef það er ekki gert nákvæmlega eins og hann vill þá fær hann að heyra hvað hann er ömurlegur og kennarinn hlær. Honum finst hann vera svo fyndinn þegar hann gerir lítið úr öðrum. Og það leiðinlega er, hann kann ekki að sparka í bolta sjálfur. Hann reynir og reynir en boltan fer alltaf í öfuga átt en hann ætlar, maðurinn er algjör hryllingur. Ég er ekki frá því að vangefin api með báðar lappir brotnar gæti sparkað bolta fastar og með meiri nákvæmni en þetta barn í of krumpuðum líkama. Hann fær frekjuköst ef krakkarnir gera ekki nákvæmlega eins og hann vill og ég hugsa í raun bara um það þegar krakkar benda á eitthvað í bónus sem mamma nennir ekki að kaupa, krakkarnir taka þá til sinna ráða og byrja að öskra og væla. Hann er nákvæmlega eins, nema það að hann er krumpaður gamall kall.

Þetta var pínu sem er að gerast í mínu lífi, ég vona að þið höfðuð gaman af þessu :D

Stefnir Ægir Stefánsson.