Friday, July 6, 2012

Afmaeli, afmaeli! :D


Sæl öll

Mér finst þið alveg eiga skilið að fá eitt blogg áður en sumarfríið byrjar, því að þá kemst ég ekki í net og án þess er erfitt að setja eitthvað á netið. Ég byrja síðan aftur í skólanum í september með glænýjar og brakandi ferskar sögur héðan. Spurningin er þó, hvað á ég að skrifa um núna? Satt best að segja veit ég það ekki sjálfur, ég reyni þó hehe.

Núna undanfarna daga hefur verið óþægilega heitt, ég ligg sveittur uppi í rúmi á hverju kvöldi, og það er ekkert ánægjulegt við það! Hitinn er óbærilegur, rakinn hérna nær hátt upp í 75%, sem er skelfilegt. Hitinn nær alveg 30 gráðum og sólin skín hátt á himni. Bara það að labba í skólan er maraþon, ég er í stuttbuxum og á bolnum, vesalings jakkafata karlarnir. Það er sko nóg af þeim hérna.
Ef maður labbar inn í búð, banka eða annað með einhvers konar kælingartæki sem guðarnir sendu, má líkja því við að stíga fram af brún sólarinnar og stökkva í ísbað, og síðan öfugt þegar þú labbar út. Ef þið haldið að ég sé eitthvað að grínast með þennan hita er ykkur velkomið að detta inn í kaffi og skonsur, og jafnvel hráan fisk ef ég er í skapi til þess.

Tíminn líður þó óbærilega hratt hérna úti og ég skil ekki að 1/3 af dvölinni minni er búin, það er svo margt búið að gerast, ýmist yndislegt og ekki svo yndislegt, en ég get þó ekki annað sagt en að ég hef þroskast mikið á þessum 3 og næstum því hálfum mánuði sem ég er búinn að vera hérna úti. Er meiri að segja byrjaður að segja já við kaffi þegar fullorðna fólkið býður mér, ef það er ekki það að vera fullorðinn, veit ég ekki hvað er.

Það er því miður allt morandi í litlum djöflum hérna úti! Ég er ekki að tala um asíubúana, nei.... heldur kakkalakka. Litlar viðbjóðar sem stelast í matinn þinn þegar þú ert við annað látinn, eins og að drepa bróðir hans eða álíka. Ég hef lent í áras eins þeirra í herberginu mínu, ég skal deila sögunni minni af þeirri áras. Þetta er þó ekki ætlað óléttum konum né gömlu fólki. Sérstaklega ekki kakkalökkum!
Það var heit nótt, ég leit út um gluggan og sá ljósið frá eldingu koma  og fara eins fljótt og það kom. Ég var að búa mig undir svefninn, var búinn að fara í bað og hreinsa af mér óhreinindin, bursta í mér tennurnar og nýbuinn að raka stubbana sem myndast þriggja daga fresti(Hvað sagði ég um að vera fullorðinn, ha?). Ég settist við skrifborðið mitt, tók svörtu bókina og byrjaði að skrifa hvað ég gerði í dag. Lokaði henni og geispaði, dauðþreyttur eftir langan og heitan dag. Gluggarnir voru báðir, þó með netrennuna fyrir svo flugurnar fljúgi ekki inn í herbergið og sjúgi úr mér allt blóðið(Það virðist samt ekki stoppa þær, talandi um litla djöfla!). Ábreiðan af rúminu fékk að fljúga á sinn vanalega stað þar sem hún sefur á nóttinni, þar til hún verndar rúmið mitt fyrir litlum djöflum á daginn. Ég stóð upp úr rúminu, gleymdi að draga fyrir gluggann fyrir ofan rúmið, teygði höndina að gardínunni nær skrifborðið, lokaði lófanum um hana og þá gerðist allt mjög hratt. Ég heyrði lítið skrjáf og fann eitthvað á hendinni minni, ég leit letilega á höndina og sá djöfulinn sjálfan á hendi mér, í formi kakkalakka. Ég stóð kyrr eitt andartak og leit á kakkalakkann, og hann á mig. Hann brosti, blikkaði mig og dróg fram risastórt tvíhennt sverð og hjó af mér hendina, rétt fyrir neðan olnboga, ég horfði á hendina mína detta á gólfið og leit á stubbinn, kakkalakkinn stóð ennþá á stubbnum og gaf mér fingurkoss, þó hann hafði enga fingur.
Ég er að grínast! Hann dró fram haglabyssu, sagði "SAY HELLO TO MY LITTLE FRIEND", og skaut ítrekað í loftið og hvarf síðan, skildi aðeins eftir stafinn "Z" í gardínunni.
Hann stökk á hendina á mér og ég í panikki dró hana fast að mér, greyjið datt á gólfið og byrjaði að væla. Stefnir Kakkalakkabani lét þó ekki á sér standa og fann ruslatunnuna sína, lokkaði gerpið í gildruna og það heppnaðist. Það skrjáfaði mikið í ruslapokanum, en eftir dass af handspritti og flösku til að kremja greyjið heyrðist ekkert meira þessa nótt, fyrir utan hljómsveitina sem spilaði þema-lagið mitt. Svona stóð til að ég fékk nafnið, Stefnir Kakkalakkabani. Áður en ég sofnaði, hvíslaði ég "Hasta La Vista, kakkalakki".


Þetta blogg er þó til að heiðra pabba mínum sem verður orðinn 44 ára þegar þetta blogg byrtist ykkur, til hamingju með afmælið pabbi minn, ég vona að hafir átt skemmtilegan og ánægjulegan afmælisdag. Fullan af kaffi og svona fullorðinsdóti. Ég verð heima á næsta ári tilbúinn að syngja og senda þig á elliheimili, því 45 ár er jú helvíti mikið!

Síðan ég kom til Japan hef ég verið að lesa mjög mikið, ýmist til skemmtunar og stytta mér tíma þegar ég hef ekkert betra að gera, ég hef lesið ótal bóka eftir Agatha Christie, eina eftir Oscar Wilde, og fleiri sem ég man ekki alveg hver skrifaði, það er nefninlega einn kennari sem er svo skemmtilegur að lána mér bækur, sem ég les á engri stund, en núna hef ég fundið annann bókaflokk eftir engan annan en George R. R. Martin, A song of fire and ice heitir þessu bókaflokkur og fjallar um það sem hann velur að skrifa, sem er hvað sem er. Hann er óhræddur við að drepa aðalpersónuna og ekki lengi að finna sér nýja. Í augnablikinu eru 5 bækur í þessum flokk. Ég er kominn vel inn í þriðju bók, og þetta er svo æsispennandi, get varla látið bókina frá mér.

Ég vona að þið hafið skemmt ykkur vel við að lesa bloggið mitt, og ég vona að þið eigið eftir að skemmta ykkur enn betur í framtíðinni þegar þau verða fleiri. Þegar ég skoða tölurnar um hversu margir koma og skoða síðuna fyllist ég stolti, þetta gæti þó bara verið Eyrún eða mamma að tékka eftir nýju bloggi á korters fresti, en ég efa það. Það er gaman að deila með ykkur hvað ég er að gera, og náttúrulega skemmtilegt að skrifa um sjálfan sig, mjög skemmtilegt!

Stefnir Ægir Stefánsson

2 comments:

  1. Stefnir? að drekka kaffi?
    Þessu trúi ég ekki fyrr en ég sé það með eigin augum!

    Ég er samt viss um að kakkalakkasagan hefur verið þannig að þú hefur grenjað eins og smástelpa og litla sæta asíska mamma þín hefur þurft að bjarga þér og drepa hræðilegu pödduna :*

    ReplyDelete
  2. Barbapabbi segir takk takk fyrir afmæliskveðjurnar ;) En kakkalakkasagan hmmm jú sko það sem Eyrún minntist á er mun líklegra en að þú hafir ráðist á hana sjálfur hihi, þú ert sko sonur minn og ég er afar hræddur við svona litlar ógeðslegar og mikið hættulegar pöddur sem gera engum neitt. Knús Stefnir okkar og haltu endilega áfram að skrifa og hafðu það gott í hitanum ;)

    ReplyDelete