Monday, July 23, 2012

Ferdir!


Góðan dag!
Dagurinn í dag er 17. júlí, svo þetta er skrifað fyrir soldið löngu síðan, ég ætla þó a' skrifa nokkur blogg yfir sumarið svo ég gleymi örugglega engu, og svo ég verði tilbúinn með nokkur þegar skólinn byrjar.

Hér á dögunum fór ég til Nagano-ken, sem liggur ekki langt frá Tokyo, um það bil 3 tímar í rútu.
Ég og Okaasan gerðum okkur til fimmtudagsmorgunin, hafði pakkað kvöldið fyrir, svo ég var tilbúinn, og síðan lögðum við af stað til Shinjuku-eki(station). Þar lá aðeins og freistandi ísbúð, og ég keypti mér ís, og hann var mjög góður. Af gerðinni, Haagen-Dazs. Svo var farið af stað með rútunni. Ég svitnaði mjög mikið og hefði ábyggilega getað selt eins lítra flöskur af svita og stórgrætt. Ef fólk vill svita í einslítra flöskum má það endilega hafa samband.
Rútu ferðin var ágæt, ágætis útsýni, rútan var kæld og ég var með góða bók. Við stigum svo út úr rútunni í einhverjum bæ, sem ég man ekki hvað heitir, en í honum fæddist fósturmamma mín og ólst upp. Þetta var týpískur japanskur bær, stór bær, þröngar götur, lítið fólk, litlir bílar, lítil hús og síðan stór tjörn í miðjunni. Við löbbuðum svo að húsi Obaachan(ömmu) og fórum inn til hennar. Okaasan sýndi mér allt húsið og rak ég hausinn í dyragættir og skápa oftar en einu sinni, þetta hús hefur annaðhvort verið byggt í venjulegri stærð og sokkið um kannski 1 meter, eða byggt svona afskaplega lítið. Mig þykir seinni valmöguleikinn líklegri. Við fórum síðan, Okaasan, Obaachan og ég, með bólginn og bláan haus, til Obachan(takið eftir! Obachan er frænka mans, á meðan Obaachan, með tveimur a'um er amma). Hún bjó hinsvegar í mjög stóru húsi, með fullt af tatami herbergjum, stóru eldhúsi og stofu líka. Ég held að hæsti maður Japans hafi mögulega átt heima þarna einu sinni...
Obachan bjó til æðislegan mat og við borðuðum af bestu lyst. Eftir matinn sátum við og spjölluðum og höfðum kósý. Síðan sló klukkan 9 og þá kominn tími til að fara í bað. Sturtan(Maður verður að fara í sturtu fyrst, áður en maður fer í baðið hérna úti. Þetta er gert til að skíta ekki vatnið út svo aðrir geti notað það á eftir þér, síðan er það notað í þvott eða annað gagnlegt) var annaðhvort ísköld eða drulluheit svo ég beit tönnunum saman og valdi ískalda sturtu, því baðið er jú heitt. Eftir sturtuna, sem var ísköld, og frekar óþægileg, var komið að baðinu. Ég ungur og vitlaus stökk beint í baðið og sestist. Síðan, eftir svona þrjár sekúndur í baðinu, sló eitthvað klikk í heilanum á mér, og öll taugakerfin í líkamanum sendu sömu skilaboð að heilanum í einu, ef taugakerfi gætu skrifað á blað, færu skilaboðin nokkurn vegin svona: " Viltu drulla þér uppúr vatninu drengur! Vatnið er skaðbrenndandi heitt og þú ert búinn að vera hér í heilar þrjár sekúndur, vertu fljótur!". Ég skaut hendinni uppúr baðinu og greip um eitthvað til að hífa mig upp, náði taki og heif mig uppúr baðinu, og lenti á gólfinu. Másandi og blásandi lá ég á gólfinu í nokkrar sekúndur, til að reyna að átta mig á klaufaskap mínum. Það rann síðan upp fyrir mér að ég hefði átt að tékka á hitanum á vatninu, þvílíkur klaufaskapur! Deginum lauk síðan með því að ég lagðist á futon dýnuna mína og lokaði augunum, og þá kom Óli Lokbrá og dustaði svefn dufti á mig.
Ég vaknaði og fór niður og fékk mér morgunmat, leist þó ekki beint á blikuna þegar ég sá að það var steikt síld, óskorin, haus og alles. Svo var eitthvað þarna líka sem maður myndi borða í kvöldmat. Síldin var bragðgóð og smakkaðist af síld.
Við fórum svo að heimsækja gröf Ojiichan(Afi) og fyrrverandi mann hennar Obachan (Frænku), við fórum með leigubíl, því að "kirkju"garðurinn þarna var uppi í fjöllunum, með mikinn og þéttsetinn skóg í kring, og fallegt útsýni yfir bæinn. Við þrifum gröfina(Allir sem látast í Japan eru brenndir og krukkurnar komnar fyrir undir gröfinni, alls geta verið átta urnir undir einni gröf, góð leið til að spara pláss, og liggja við hliðin á ástvinum sínum, það sem eftir er), kveiktum á ilmkertum og þökkuðum guði fyrir að vera á lífi held ég.
Daginn eftir var komið að mér og Okaasan að fara heim, en fyrst fengum við þó fullt af heimaræktuðu grænmeti frá Obachan(frænku), til ap bera heim. Rútan var ágæt, ég var þó búinn að klára bókina og hafði  því ekkert betra að gera en að hlusta á tónlist og horfa útum gluggan. Þegar við komum að Tokyo var síðan tilkynnt að við yrðum klukkustund lengur á leiðinni. Þá varð ég pínu pirraður, og sveittur. Síðan þegar við komum að stoppistöðunni, einum og hálfum klukkutíma of seint, var svo mikill mannfjöldi þarna, meiri pirringur og sviti. Við náðum þó að komast heim ósködduð! Sveitt, en ósködduð.

Ég fékk um daginn að vita að ég get farið í tölvu í skólanum þó svo að sumarfríið sé, því að bóksafnið er víst alltaf opið, svo ég get hent inn nokkrum bloggum í gegnum sumarfríið, það verður þó ekki oft, því ég hef hreinlega betri hluti að gera en hanga í tölvunni. Þið heyrðuð rétt gott fólk, tölvufíkillinn Stefnir hefur betri hluti að gera, og lætur ekki sjónvarpið né tölvuna stjórna lífinu sinu!

Ég kom heim í gær frá mjög góðri, þriggja daga fjölskylduferð til Miyagi-ken og Fukushima-ken. Ég sat í bíl mest alla ferðina, en tíminn var vel nýttur og ég náði að lesa "Norwegian Wood" eftir "Haruki Murakami" sem er einn fremsti rithöfundur Japana og hefur skrifað margar "best seller´s" eins og þeir kalla það þarna fyrir vestan. Bókin fékk þó að liggja þegar náttúran í Japan fór að sýna sig, og hún er afskaplega falleg. Mikið af trjáfylltum fjöllum, blómum, runnum og öðru grænu. Við stoppuðum svo í einhverjum bæ sem heitir eitthvað, þar sem ég og mamma fórum í skoðunarferð með ferju. Á meðan lagði pabbi sig í bílnum. Ég fór strax á aðra hæð í ferjunni og mér brá heldur í brún þegar fjöldan allann af fuglum sem eltu ferjuna. Á ferjunni selja þeir einhverskonar rækjusnakk sem menn gefa fuglunum sérstaklega, og þeir eru ekki feimnir við að bíta í puttann þegar þú réttir framm snakkið. Ég náði nokkrum fínum myndum af mér og þessum fuglum og fer það inn á Facebook, svo þeir sem vilja geta skoðað það þar. Við sigldum í gegnum eyjaklasa sem spilaði stóra rullu á síðasta ári þegar flóðbylgjan skall á Japan. Eyjurnar tóku á sig mest allann skaðann og bærinn slapp með naumindum. Þó voru nokkur hús sem bleyttust og þurfti að endurbyggja þau, er mér skilst.
Við heilsuðum upp á nánast alla úr fjölskyldunni hans Pabba, því hann er frá þessu svæði og við komum líka við gröf mömmu hans og pabbi og gerðum hana fína og heiðruðum þau, með því að hella einhverju gosi og sake yfir grafsteininn. Mamman elskaði víst þetta gos og pabbinn fanst Sake gott, svo því var hellt yfir grafsteinninn. Við gistum á risastóru hóteli. Það var mjög amerískt, fyrir utan herbergin, það voru tatami herbergi þar, sem er ekki mjög amerískt... Það var sundlaug og "heitir pottar" og ég veit ekki hvað. Við fórum í heita pottinn, kynjaskipt og maður kviknakinn og eftir var matur. Maturinn var helvíti skrítinn... Ég ætla ekki að segja að hann hafi verið vondur, en ekki góður heldur. Það var allt of mikið af hráum fisk og sækvikindum. Þetta var nú samt fínt.
Daginn eftir keyrðum við meira og hittum meira frændfólk. Bróðir minn bættist síðan í hópinn eftir að við vorum komin á hótelið. Við fórum í pottinn, en! það var pottur fyrir karlar og konur, og síðan einn fyrir bæði karla og konur, fyrst fórum við í karla pottinn, síðan fór ég og bróðir minn í bæði karla og konupottinn, afskaplega afslappandi! Í svona 100m fjarlægð frá hótelinu var annar bæði karla og konupottur, sem lá alveg við á sem hægt er að synda í. Ég og bróðir minn fórum strax þangað og fórum í pottinn, síðan í ánna og héldum þannig áfram þangað til við vorum orðnir ískaldir en heitir á sama tíma, mjög góð tilfinning! Gokurakudatta!
Maturinn á seinni hótelinu var mikið skárri en á því fyrri, og ég drakk coke með. Fór að sofa saddur og heitur og kaldur á sama tíma!
Ég og bróðir minn vöknuðum snemma og fórum aftur á sama stað og  fórum í pottinn og ánna síðan eftir á. Frá hótelinu er hægt að sjá "pottinn" og ánna mjög vel, þetta er svona 20 m frá hótelinu. Ég gleymdi víst að nefna að maður verður líka að vera nakinn í þessum pott, og við höfðum ekki fyrir því að skella okkur í neitt svo við syntum í ánni naktir. En það virðist vera allt í lagi hérna...

Ég er orðinn þreyttur og ætla því að hætta að skrifa og setja þetta inn á netið. Ég vona að þið skemmtuð ykkur við að lesa þetta blogg, og bara svo þið vitið, þá er alltaf gaman að fá comment :D Ég get þó alveg verið án commentum sem hljóma einhvernveginn svona:
"Stefnir, íslenskan þín er hræðileg! Hvernig væri að þú myndir kaupa þér orðabók, kíkja í hana af og til og skrifa síðan almennilega?" eða " Vááááá, gaur..... þetta sökkar". Ekki það að ég hafi verið að fá svona comment, langt frá því.

Stefnir Ægir Kyntröll Stefánsson

2 comments:

 1. Stefnir minn þetta eru frábærar fréttir, mikið um að vera og greinilegt að Japanir hafa góð áhrif á þig. Tölvufíkn og sjónvarpsgláp hmmm heyra sögunni til eða hvað. Mikið rosalega hlýtur að vera gaman að sjá alla þessa frábæru náttúru og kynnast öllu þessu fólki.

  Íslenskan þín sökkar en ég held það sé vegna þess að þú ert ekkert að vanda þig "herra" góður ;)

  Meira samt af svona bloggi það er svo rosalega gaman að fylgjast með þér. Hlakka til að heyra frá þér þann 5 ágúst, þú veist að amma í kópavogi á afmæli þann dag verður 75 ára.

  Knús og kram frá okkur á Íslandi. Byð að heilsa mömmu þinni og pabba.

  Bless belss mamma og pabbi

  ReplyDelete
 2. Loksins kom nýtt blogg!

  Ég ætla að taka þessari yfirlýsingu þinni um minnkaða tölvunoktun með fyrirvara.. en annars er ég afskaplega öfundsjúk út í þig að fá að ferðast svona mikið í Japan!

  Ps. Íslenskan þín er.. frábær :)

  ReplyDelete