Pages

Thursday, August 2, 2012

Karate ferd!


Verið blessuð!

Síðan síðasta blogg hefur verið frekar rólegt hérna hjá mér, karate, lesa, læra og svo framvegis. Þó hefur eitthvað gerst og það var Karate-ferðin mikla. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá því, síðan eru komnar nýjar myndir inná Facebook :D Njótið!

Ég vaknaði klukkan korter yfir 6, 27. júlí og staulaði niður tröppurnar til að fá mér morgunmat, sem var restir frá kvöldmatnum. Sólin skein harkalega úti og húsið var heitt og rakt. Ég skóflaði morgunmatnum í mig og þakkaði fyrir mig, hljóp upp stigann og inn í baðherbergið til að bursta í mér tennurnar. Eftir það fór ég inn í herbergi og tjékkaði hvort allt væri ekki í töskunni; nærbuxur, sokkar, orkuduft (Karate klúbburinn sagði við okkur að taka með duft fyrir svona sportdrykki, því að það er rosalega heitt og rakt og æfingarnar erfiðar og þá er gott að fá smá auka), stuttbuxur, Ipod, bækur, bolir, handklæði fyrir svita, handklæði fyrir að þurrka eftir bað og handklæði fyrir bæði. Síman, veskið, karatebúninginn, karate hanskana og allt hitt aukadraslið sem ég þurfti að draga með mér. Ég endaði með eina stóra þunga tösku(Ekki á hjólum, er þó með eina þannig, en vill spara hana) og einn fullann bakpoka. Ekkert nammi. Ég klæddi mig í fötin sem ég ætlaði að vera í þegar ég færi af stað, skyrtu og stuttbuxur. Ég kvaddi fósturmömmu mína og strunsaði út með bakpokann á bakinu og þungu töskuna í hendinni. úti var heitt og rakt og óþægilegt. Ég hugsaði:" Andskotinn, afhverju í ósköpunum þurftir þú að velja töskuna sem var ekki á hjólum ?  Hvaða rugl er þetta drengur ?". Þegar ég loksins kom að lestarstöðinni var í kófsveittur og skyrtan rennandi, fólk horfði á mig. Ég horfði tilbaka og gaf þeim "What u looking at" augnaráð. Ég var þó ekki sá eini þarna sem var sveittur, mikið af fólki var meiri að segja með handklæði um hálsinn til að þurrka hann. Lestin var vel kæld og það var gott að stíga inn og finna kuldann leika um holdið og kæla mig niður. Það var hinsvegar ekki svo þægilegt að stíga úr lestinni og labba á þungan vegg af hita og raka. Ég var þreyttur í höndunum eftir að hafa haldið á töskunni svona lengi og kenndi sjálfum mér vonandi lexíu.
Ég heilsaði félögum mínum úr karate klúbbnum og setti töskuna frá mér, rennandi blautur og sestist niður. Við vorum ekki allir komnir og rútan líka ókomin. Þegar allir voru sestir upp í rútuna lögðum við af stað og ég dróg upp bók á meðan aðrir lokuðu augunum og búðu sig undir smá lúr.
Við stoppuðum við einhverri risastórri vegasjoppu og borðuðum hádegismat, margir keyptu sér ramen núðlur en ég hafði tekið með að heiman grjónabollur(Riceballs) og eitthvað annað sem fósturmamma mín setti saman sem bragðaðist alveg ljómandi vel. Skolaði þessu niður með ísköldu vatni og leið betur eftir á. Lofitð var óbærilega þétt af raka og vinur minn sagði mér að það væri hitabylgja núna í Japan, útum allt. Það þýddi því lítið að fara norður til að sleppa frá hitanum, ferðin var þó vel heppnuð og skemmtileg.
Þegar við komum að gististaðnum leist mér ágætlega á. Það var aðstæðia fyrir þvott, sem betur fer, annars hefði karate búningurinn ábyggilega lyktað eins og hræ af belju sem legið hefur í ræsi í tvær vikur. Ég þvoði karatebúnginn á hverjum degi! Eftir að hafa sett töskurnar inn á herbergið slöppuðum við af í hálftíma, skiptum yfir í karatebúninginn og fórum með rútu í svona 40 min að staðnum þar sem við æfðum yfir ferðina. gististaðurinn lá semsagt ekki á sama stað og staðurinn þar sem við æfðum karate, ef einhver var ekki búinn að ná því. Æfingin var á léttum nótum og eftir 2 tíma keyrði kallinn okkur aftur að gististaðnum. Þá gátum við þvegið búningana, þvegið okkur í baði og farið síðan í kvöldmat. Herbergin voru með japönsku útliti og voru því Tatami herbergi, og því sofið á Futon, sem er 4 cm þunn sæng/dýna sem margir Japanir sofa á. Svefn kom auðveldlega.
Vöknuðum um morgunin klukkan 6 og fórum út að "hlaupa". Þegar ég segi "hlaupa" meina ég að við hlupum kannski 400m upp mjög bratta brekkur, mjög bratta brekkur! og þar uppi var stórt bílastæði þar sem við gerðum einhverjar æfingar eins og sprett, valhopp og annað sætt. Þegar við hlupum síðan aftur niður að gististaðnum tóku við aðrar æfingar, armbeygjur á hnúunum á mjög grófu malbiki. Þetta er gert til að búa til harða hnúa, eða bara til að erfiða armbeygjurnar, því það er ekki beinlínis þægilegt að gera armbeygjur á grófu malbiki á hnúunum. En það var gert, 30*3. Síðan voru magaæfingar og annað skemmtilegt og krúttlegt. Morgunmaturinn var afskaplega góður eftir svona erfiðleika.
Karateæfingin eftir á var ekkert smá erfið, það var sparkað og kýlt og ég veit ekki hvað! Svitinn flaug hægri vinstri og allir voru í rugli. Þennan morgun gátum við hinsvegar ekki notað motturnar sem við notum alltaf þegar við æfum karate, og fæturnar voru því ótrúlega aumar eftir harrt parkettið. Ég fékk blöðru undir sigginu, hún valdi mig engum skaða fyrr en á næst síðasta deginum, meir um það seinna. Æfingin varði í tvo tíma og það var heitt og rakt. Við fengum að fara í vatnspásu á hálftíma fresti og þá var sko drukkið, enda svitnuðum við eins og ég veit ekki hvað. Eftir æfinguna var matur sem var sendur til okkar og við átum á staðnum, þetta er risastórt húsnæði með súmóhring, kendo æfingasal, judo æfingasal, ping pong æfingasal, risastórum sal þar sem innifótbolti og körfubolti var spilaður og stór æfingastöð líka. Eftir matinn höfðum við frían tíma til klukkan 3, en þá byrjaði seinni æfingin. Fyrsta æfingin varði frá 10-12. matur og síðan bið þangað til seinni æfingin byrjaði. Ég las í bók sem einn kennarinn minn lánaði mér, eftir mjög frægan japanskan höfund þýdd yfir á ensku, merkileg bók. Kölluð: "The wind-up bird chronicle". Ég get ekki lýst henni öðruvísi en að maður verður að lesa hana hægt og rólega til að skilja hvað í ósköpunum er í gangi.. Til dæmis var einhver gamall kall sem sagði aðalgaurnum frá því þegar hann dó næstum því í botninum á brunni þegar hann var ungur maður, svo allt í einu hugsar aðalgaurinn þegar hann finnur brunn "Heyrðu andskotinn, ég ætla líka að klifra þangað niður og vera þarna í þrjá daga án þess að borða eitthvað".
Ég sofnaði við lesturinn í einhverjum sófa sem var þarna og þegar ég vaknaði sá ég mér til undrunar að flestir úr klúbbnum hefði fylgt mér, þeir voru allir sofandi upp við hvort annað, litlir englar. Nú vantaði mig bara túss, litað yfirvaraskegg og þá hefði ég kallað okkur "Karateklúbbur sjéntilmanna". Ég bjóst við frekar rólegri æfingu, þangað til að ég sá hver hafði komið til að stjórna henni. Engin annar en aðal þjálfarinn. Hann er hrikalega góður og fínn kall og mjög góður í karate, en æfingarnar hans eru ekkert nema hreinn viðbjóður! við fáum eina vatnspásu, í 30 gráðu hita(Staðurinn sem við fórum er norður fyrir Tokyo, svo markmiðið var að reyna að sleppa frá hitanum. Ef eitthvað er, þá var heitara þarna...) Það er mjög erfitt að lýsa æfingunum hans nema þannig að þær eru mjög erfiðar og daginn eftir var éeg illa haldinn af harðsperrum.
Fórum út að hlaupa og gerðum æfingarnar. Komum niður og þar beið aðal þjálfarinn.... það breyttist ekkert nema það að hann lét okkur gera hjólbörur(þar sem þú labbar á höndunum meðan einhver heldur á löppunum þínum) á hnúunum, á grófu malbiki. 15 metra þakka ykkur kærlega fyrir. Hnúarnir voru vel aumir eftir þetta, ég fékk pínkulítið sár á einn hnúann en ekkert meira, fyrir utan hvað þeir voru aumir. Ég slapp betur en allir hinir, ekki veit ég afhverju, ég er miklu þýngri en þeir, hvað veit ég. Þeir voru allir með risasár á öllum hnúum greyin. Morgunmaturinn var góður og ég var langfyrstur að klára, eins og venjulega. Morgun karateæfingin var mjög erfið líka. Mér leið þó vel í líkamanum eftir á, þó svo að hann var illa haldinn af harðsperrum...
Seinni æfingin var ekki jafn erfið, því að allir voru mjög þreyttur. um morgunin hafði aðal þjálfarinn látið okkur halda "mót" þar sem við kepptum við hvort annað. allir kepptu tvo leiki og ég keppti við kapteininn úr klúbbnum og Arahki sem er fyrsta árs nemi, fínn strákur. Í leiknum við kapteininn(við erum jafngamlir) vorum við jafnir, við náðum hvorugir að lenda nógu góðum spörkum eða höggum á hvort annað. Hann er með brúna beltið og ég er með það hvíta. Það var þó nokkrum sinnum þar sem ég náði(held ég) góðu höggi inn á hann, og hann inn á mig en dómarinn (aðalþjálfarinn) dæmi ekkert, svo við héldum áfram. Það var þó önnur saga fyrir leikinn á milli mín og Arahki, eftir fyrsta höggið (sem var mitt) var ég kominn með stig, og síðan eftir 15 sek var ég kominn með annað stig og búinn að vinna leikinn. Við töluðum um hvað okkur fanst erfitt og hvað okkur fanst létt þegar við vorum að berjast. Ég fékk hrós, en líka gagnrýni sem ég þarf að vinna í. Dagurinn var heitur og það var gott að leggjast upp í rúm og sofna.
Vakna, morgunhlaup og armbeygjur á hnúunum (Það má ekki sleppa þeim þó svo að hnúarnir séu aumir!). Núna kom annar þjálfari til að stjórna kennslunni, þessi, eins og hinn, er mjög fínn gaur og góður í karate! Hann var með tækniæfingu.
Þegar ég var að lesa eftir hádegismatinn byrjaði allt í einu að rigna heilmikið og þvílíkar þrumur heyrðust í fjarska. Innan skams sá ég þó skært hvítt ljós og brotsekúndu seinna heyrðist þvílíkt BRÚMMMMMMMM, ég var hræddur um að glugginn myndi springa, en hann gerði það ekki. Rigningin fór jafn fljótt og hún kom og við tók skær gul sól. Seinna myndaðisr þvílíkur raki!
Um kvöldið var grill og það var mjög skemmtilegt og góður matur!
Vakna, morgunhlaup (síðustu 90 armbeygjurnar!) og morgunæfing og síðan heim. Ég svaf mest alla leiðina heim í vel kældri rútu og það var fínt. Þegar við komum að skólanum þurfti ég þó að dröslast með þungu töskuna heim (Já, ég kenndi sjálfum mér lexíu). Heilsaði fósturmömmu minni og við töluðum saman um hvað gerðist og svona, mjög skemmtilegt.

Núna hlakka ég þó til að 6. ágúst komi, því þá er AFS námskeið sem varir í 4 daga, það verður rosalega skemmtilegt og það er stór og mikil dagskrá framundan! En það verður allt í næsta bloggi !

Ykkar kærkomni Japansfari og myndarlegi vinur,
Stefnir Ægir Stefánsson

2 comments:

  1. Þú talar alveg einstaklega mikið um svita, er það sérstakt áhugamál?

    ReplyDelete
  2. Gaman að lesa þessa ferðasögu ;) ferlega finn ég til í höndunum yfir öllu þessum æfingum á hnúunum. Ekkert smá erfitt að gera þetta líka á malbikinu.

    Hlakka til að lesa næsta blogg um AFS ferðina. Ekki láta líða of langt á milli það er svo gaman að heyra frá þér.

    Knús til þín og þakkaðu mömmu þinni fyrir það hvað hún sér vel um þig, nesti og allt. Hún er greinilega búin að lesa þig rétt, ALLTAF svangur ;)

    knús Mamma og Pabbi

    ReplyDelete