Pages

Monday, August 20, 2012

Stor eyja


Góðan og blessaðan!

Þið verðið að afsaka hvað ég var lengi um skrifa nýtt blogg, en ég hef verið afskaplega upptekinn og ekki getað komist í tölvu.


Í síðasta bloggi sagði ykkur frá gashuku(karate ferðinni). Núna verður lögð áhersla á Ooshima(stóra eyja) kampið. Næst verður Mt. Fuji ferðin. Spennið beltin.


Hitti vinn min hann Gústav eldsnemma mánudaginn 6. ágúst og fórum saman til Ikebukuro (stór lestarstöð sem liggur nálægt þar sem við búum) með ferðatöskurnar okkar. Hittum þar Marie, danskan skiptinema sem býr í Neríma (einn af 23 sérstökum köflum sem gera Tokyo, ég bý þar), það er þægilegt fyrir okkur þrjú að skipta yfir í dönsku og sænsku. Því ég skil Marie að sjálfsögðu mjög vel og Gústav líka, þó hann tali sænsku. Við höfum líka verið að æfa okkur í því að skilja hvort annað og það gengur mjög vel núna. Hittum síðan Alex, skiptineman frá Kanada, franska hlutanum. Við þurfum því miður að skipta yfir á ensku þegar hýn er, því hún skilur ekki stakkt orð í dönsku og sænsku. Það var þarna kona frá AFS sem leiddi okkur að staðnum þar sem við hittum alla hina skiptinemana. Eftir að hafa verið í hitanum svona lengi var gott að komast í lest því þær eru alltaf vel kældar. Lestin var ekki troðfull og við gátum fengið okkur sæti, sem var afar heppilegt. Hittum Benjamin síðan, skiptinemi frá Costa Rica sem er mjög góður í Hipp-hoppi...
Benjamin sagði okkur frá skiptinemunum sem voru farin heim fyrir áætlaðan tíma. Það var víst ein sem fór heim mjög snemma vegna þess að hún saknaði kærastans aðeins of mikið. Einn sem átti í vandræðum með fjölskylduna, ein sem var ekki til í að sætta sig við reglurnar hérna úti og svo framvegis.
Við fórum með hraðþotu til Ooshima á 45 min. ég og Gústav sátum hlið við hlið og töluðum við skiptinema og vini okkar.  Það er svo gaman að tala við fólk sem er að ganga í gegnum nákvæmlega það sama og maður sjálfur. Maður tengist betur.
Þegar við stigum af bátnum var bæði heitt og rakt, við vorum þó ekki lengi í sólinni sem skein svo harkalega því okkar var hóað í rútu. Í rútunni var kalt og gott.
Rútan keyrði okkur að stórri skólabyggingu þar sem sjálfboðaliðarnir biðu með "Velkomin" fána og öskruðu "WELCOME" og "SO NICE TO SEE YOU", með svo miklum japönskum hreim að það var nærri því óskiljanlegt. Við fórum inn í stóra bygginu þar sem við settum töskurnar frá okkur, þetta var greinilega mötuneytið og síðan var stórt rými líka þar sem við dönsuðum og sungum, útskýring kemur seinna.
Við settumst niður og fengum smá frítíma til að tala og hugga okkur áður en fjörið byrjaði.
Japönsku krakkarnir komu um klukkutíma eftir að við komum og voru um það bil 100 krakkar frá Japan. Ég myndi segja að 75% af krökkunum hafi verið stelpur. Þetta voru krakkar á aldrinum 14-18, okkur var skipt niður í hópa, einn eða tveir skiptinemar, einn sjálfboðaliði sem var fyrirliði og síðan um það bil 9-12 japanskir krakkar. Fyrirliðin okkar var án efa sá besti! Hann heitir Kei og talar bæði ensku og japönsku, hann skildi kaldhæðni og ég og Jean (Skiptinemi frá Malasíu, mjög skemmtileg. Var með mér í hóp) vorum stöðugt að grínast í honum, og hann í okkur.
Eftir að hafa brotið ísinn með krökkunum sem voru feimin var kvöldmatur sem smakkaðist ágætlega.
Síðan var baðtími sem var afskaplega fínn. Ég, Gústav og Jóhannes (Skiptinemi frá Finnlandi) tókum ískalda sturtu, vegna þess að Jóhannes sagði okkur að vera ekki svona miklar kellingar, svo við víkingarnir tókum okkur á. Baðið sjálft var heitt og eftir á leið manni afskaplega vel í skrokknum.
Morgunmaturinn var ágætur. Hrísgrjón, misó súpa, einhver kjötdrulla sem líktist helst kattarhræi og mjólk sem var feitari en beljan sem hún kom úr.
Eftir morgunmatinn komum við öll saman í rýminu fyrir aftan matsalinn og gerðum stóran hring. Þar settu sjálfboðaliðarnir japansk lag á sem þeir dönsuðu við og sungu og sögðu okkur að syngja og dansa með. Líkt og fimm ára krakkar dönsuðu þau á miðju dansgólfinu....og skemmtu sér konunglega. Ég tók upp þegar þau voru að dansa og syngja. Þau virtust hafa svo gaman að ég gat ekki gert annað en að syngja og dansa með á endanum. Það var skemmtilegt! Við sungum meðal annars "The worlds greatest" eftir "R. Kelly", afskaplega fínt lag.
Eftir þennan skrautlega atburð, sem gerðist eftir morgunmat og fyrir kvöldmat á hverjum degi, fórum við út á hlaupavöllinn, þar sem sólin skein og beið bara eftir að brenna rauðhærðan strauk á kinnunum.
Sjálfboðaliðarnir kölluðu þennan atburð "JUMP to GENESIS ISLAND" og ég er ekki að grínast....
Það sem við gerðum þar var í raun ekkert annað en að slappa af og sprauta hvort annað með vatnsbyssum. Það var þó einn viðburður sem var skipulagður, þar notuðum við hlaupahringinn sem er 400 m langur. Krakkarnir byrja á að valhoppa 20 m, síðan hoppa þau á bakið á einhverjum af sama liði og hann hleypur 20 m með liðsmann sinn á bakinu og klappa síðan annann liðtogsmann á bakið og þá tók við hopp á einum fæti, það var 30 metra. Síðan var górilluhlaup og gríptu-banana-með-munninum-og-hlauptu-eins-hratt-og-þú-getur hlaupið og restin var sprettur. Við lentum í öðru sæti.
Hádegismaturinn var ekki mikið spennandi, djúpsteiktur kjúklingur með tómatsósu, grænmeti, hrísgrjónum (Það er ekki máltíð án þess að hafa hrísgrjón) og vatn sem bragðaðist af vatni, sem ég elskaði vegna þess að vatnið í Tokyo og margstaðar í Japan bragðast örlítið af klóri, þetta er gert til að "hreinsa" vatnið...
Eftir hádegismat og fram að kvöldmat var ræðutími, þar sem við sátum í rýminu þar sem við dönsuðum og sungum fyrr um morgunin og töluðum um hvað við okkur finst um kampið, hvað við höfum lært hingað til og svo framvegis, við gerðum þetta afskaplega oft og ég var aumur í rassinum af því að sitja á gólfinu svona lengi og oft!
Kvöldmaturinn var geðveikur! Körrí og hrísgrjón og eitthvað annað sem ég man ekki, maður mátti fá sér eins mikið og oft og maður vildi og ég skóflaði niður þremum stútfullum skálum af körríi og hrísgrjónum. Þetta var himnaríki. Átti samt erfitt með að hreyfa mig eftir á, og þurfti að sitja við borðið í 10 min áður en ég gat staðið án þess að eiga þá hætta að æla hálfmeltuðu körríi og hrísgrjónum yfir allt liðið. Mér til mikillar óánægju var danspartý eftir á. Fyrst var erfitt að komast í gírinn með stútfulla bumbu af körríi en eftir hálftíma var maður farinn að sýna takta og svitna eins og ég veit ekki hvað. Ógeðslegt... En síðan allt í einu var kveikt á ljósunum eftir hálftíma af dansi og sjálfboðaliðarnir skipuðu okkur að drekka eitthvað. Það var ekki hægt að segja, "Heyrðu nei takk, ég er góður. Mér líður mjög vel núna og þarf ekki að drekka neitt í augnablikinu vegna þess að ég veit hvernig mér líður", heldur var það "DREKKTU". Mér leið eins og leikskólakrakka aftur þarna. Það var allt skipulagt upp á minutu, en sjálfboðaliðarnir komu stundum fram við okkur eins og við værum börn sem vita ekki betur, það er þó ekki málið, þetta eru allt krakkar sem vita hvað þeir vilja, og ég vildi ekki beinlínis drekka te á þessum tíma því ég var búinn að borða svo mikið og var ennþá saddur. Þetta var þó mjög skemmtilegt! Ekki efast um það, ég horfi tilbaka og sé hvað þetta var gaman, en ég sé líka hvað þetta var stundum hryllilega barnalegt. Kannski er það eitthvað japanskt. T.d. þegar við fórum að sofa var einhver sem kom inn til okkar og slökkti ljósin, síðan hálftíma seinna var annar gaur sem kom til að tjékka hvort við værum að tala eða eitthvað annað en að sofa! Ég varð aðeins pirraður á þessu því að ég er ekki krakki. ":Þú mátt búast við því að þeir koma fram við þig eins og krakka" sagði stelpa sem fór til Japans á undan mér. Ég fékk heldur betur að finna fyrir því maður!
Dans partýinu lauk og þá kom baðtíminn og eftir það rúmið!
Morgunmaturinn var ekkert sérstakur. Þið verðið að trúa mér þegar ég segist ekki vera neikvæður! Maturinn var bara ekkert sérstakur þarna haha, fyrir utan körríið maður! Djöfulsins snillingur sem bjó til þetta körríi! Fálkaorðu á hann.
Eftir morgunmatinn og söng og danstíma og örstuttan lúrtíma var okkur skipt í önnur lið og sent út í labbitúr sem var ágætur. Það var heitt og ég brann pínulítið. Veðrið var glæsilegt allan tíman meðan við vorum þarna!  Ég saknaði gamla hópsins míns, en það var nú samt gott að skipta í nýjan hóp því annars kynnist maður svo fáum!
Við skiptum yfir í gamla hópana rétt fyrir hádegismat, og ég get ekki sagt annað en að ég var feginn..  Eftir hádegismat og umræður í salnum var Talent Show´ið. Það var hugmynd hjá mér, Gústav, Marie og Sebastian (annar skiptinemi frá Danmörku) að klæða okkur sem víkingar og berjast og segja frá víkingum, en það er í raun ekki talent að vera víkingur, og engin gerði neitt fyrir talent show'ið svo það varð ekki að neinu. Það voru krakkar sem voru mjög flottir og síðan var ein kynning um Taíland, sem á reyndar ekki heima í Talent show'i...En þetta var samt ánægjulegt.
Kvöldmatur sem smakkaðist hvorki vel né illa. Eftir kvöldmatinn var campfire. Við söfnuðumst öll saman í stóra salnum og fengum lítinn miða og túss og áttum að skrifa drauma okkar og óskir fyrir framtíðinni og líma það við lítið tré. Eftir að tréið var úttroðið af miðum tóku sjálfboðaliðarnir og brenndu það á báli sem náði varla meter upp. Minnsta campfire sem ég hef séð haha! Og ekki nóg með það, sjálfboðaliðarnir stóðu svona meter frá eldnum og reyndu að grípa miðana sem brenndur voru að fljúga burt svo þeir myndu ekki fara í okkur, og sögðu okkur að vera að minnsta kosti 4 m frá eldnum..... Eins og maður vilji fara of nálægt eld?? Ég bara spyr...
Eftir eldinn komum við aftur saman í salnum og þá var einhverskonar ræðutími eða eitthvað líkt því. Það gat hver sem vildi farið upp á svið og sagt eitthvað. Flestir voru grátandi og sögðu :"Ég hef skemt mér svo vel! Ég vill ekki heim! Mig langar aftur" og eitthvað í þessa áttina. Þegar ég snéri mér við sá ég að flestir strákarni og allar stelpurnar voru hágrenjandi, vesalingarnir. Sjálfur var ég ekki grátandi, vegna þess að ég er grjótharður íslenskur víkingur!
Baðtími og svefn.
Þrifum herbergin og pökkuðum og fórum út með töskurnar. Morgunmatur sem var ekkert sérstakur. Söngur og dans í síðasta skiptið svo hvert lag var sungið tvisvar... Arhhh, var orðinn þreyttur á þessum lögum. Margir grátandi og vælandi með lögunum.
Fórum með rútu að höfninni og biðum eftir skipinu, flestir með ís í kjaftinum. Skipið var stórt og rúmgott. Okkur var vísað inn sal með fullt af stólum sem líktist helst flugvél. Þar áttum við að dúsa í klukkutíma, þá fyrst máttum við yfirgefa salinn og fara upp á dekk. Þetta fanst mér asnalegt og ég lét í mér heyra, því mig langaði að taka myndir af eyjunni, leiðtoginn minn skildi það vel en gat ekkert gert, AFS reglur greinilega. Settist bara niður og tók eitt "Rassgat" með Jóhannes og Anne (þýskur skiptinemi), Fyrir ykkur sem ekki vita hvað "Rassgat" er, þá er það spil með kortum, bara svo það sé enginn misskilningur!
Uppi á dekki var fallegt og sjórinn var blár og líktist ekkert sjónum í nálægð við Tokyo, þar sem hann er brúnn og ógeðslegur! Hélt mig uppi á dekki allan tíman þangað til sjálfboðaliðarnir hóuðu okkur inn í salinn sem líktist flugvél.
Fengum varla tíma til að kveðja krakkana því að við þurftum eitthvað að tala við sjálfboðaliðana, það fanst þeim allavega. Greinilega best að rífa plásturinn hratt af í staðin fyrir að gera það hægt.
Kvöddum hvort annað og ég labbaði heim með ferðatöskuna fulla af fötum og minningum.

Næst ætla ég að segja ykkur frá því þegar ég klifraði Mt. Fuji, það var sko gaman! Það mun ekki líða svona langur tími næst hehe :b

Ps. Ég vill deila með ykkur skrítinni upplifun sem ég varð fyrir um daginn. Ég fer út að skokka á hverjum degi og einn daginn þegar ég var að hlaupa sá ég konu fyrir framan mig, ég hugsaði ekkert meira út í það. Þangað til að ég sá hvað hún var með í ól. Hún var úti í göngutúr með skjaldbökunni sinni. Í 34 stiga hita ákvað hún að fara með skjaldbökuna sína, í bleikri ól, út að labba, skjaldbakan getur ekki hafa verið meiri en 15 cm löng og 7 cm há. Líkaminn hélt áfram að hlaupa en ég hugsaði: "Hver í ósköpunum fer með skjaldbökuna sína út að labba?". Skjaldbökur eru frekar hægfara og ekki beint spennandi dýr, hvernig datt þessari konu þó í hug að fara út að labba með skjaldbökuna sína? Og fyrir skjaldbökuna getur ekki verið þægilegt að vera úti í sólinni í 34 stiga hita, og þá er ég ekki að bæta rakann við í reiknidæmið.

Þetta var smá um það sem ég hef verið að gera.
Stefnir Ægir

No comments:

Post a Comment