Pages

Tuesday, September 4, 2012

Stutt blogg


Heil og sæl, öllsömul.

Það hefur margt gengið á í sumarríinu og því miður hef ég ekki getað sagt frá því öllu. Ég hef góða hugmynd um hvað ég ætla að skrifa þegar ég er að gera eitthvað allt annað en nákvæmlega það, síðan þegar ég sest fyrir framan tölvuna og ætla að pikka inn blogg þá hef ég ekki hugmynd hvernig ég á að byrja og hvað kemur síðan eftir það. T.d. finnst mér þetta "Heil og sæl" ógeðslega leim, en ég fann ekkert annað. 
Ég á líka eftir að segja ykkur meira frá japönskum venjum og hvernig sumarið er hérna úti, því ég hef lítið greint frá því. Þá kannski fáið þið ekki sjokk þegar þið sjáið japanska ferðamenn gera eitthvað út í hött á veitingastað eða öðrum stöðum. Ég ætla þó að skjóta því inn, að Japanir eru líklegir til alls!
Ekki láta Japana í fínum jakkafötum koma þér á óvart þegar hann dregur fram Yugi Yo kortin sín og spyr þig hvort þú spilir, það gerist.

Borðvenjur:
Japanar hafa allt öðruvísi borðsiði en við Íslendingar, allt öðruvísi!


1. Það er dónalegt að borða hrísgrjón og/eða annað úr disk/skál án þess lyfta disknum/skálinni af borðinu, því það er ósiður að halla sér yfir diskinn/skálina þegar það stendur á borðinu.

2. Ef maður fær núðlur í matinn, hvort sem það er: soba, ramen eða Udon núðlur, er yfirleitt súða með. En þegar maður sýgur núðlurnar upp í sig á maður að vera eins hávaðasamur við að sjúga þær upp. Þetta á líka við súpuna, þar sem þeir nota ekki skeiðar, heldur prjóna og það er erfitt að nota prjóna sem skeið, svo þeir drekkar frá beint frá skálinni. Ef súpan er góð, á maður að drekka hana eins hávaðsamur og maður getur verið, setja hana á borðið, halla sér aftur í sætinu, brosa og gefa frá sér langt og hávært :" AHHHHHHHHHHHH".

3. Það er ekki óalgengt að karlmenn smjatti. Á Íslandi finnst mér að refsing fyrir einhvern sem smjattar ætti að vera hálshöggvun, og það getur stundum farið afskaplega í taugarnar á mér þegar fósturpabbi minn og bróðir byrja að smjatta. Eins hátt og þeir geta.

4. Það má ALDREI stinga tveimur prjónum beint ofan í skál af hrísgrjónum, þetta táknar að hrísgrjónin séu handa þeim dauðu og er þetta því mikill ósiður ef gert og síðan borðað.

5. Það er í lagi að smakka matinn og segja síðan hátt: "OISHI" (Þetta smakkast vel), ef maturinn, í raun, smakkast vel.

Fyrir utan þessa punkta eru borðsiðir að mestu leyti það sama.

Á laugardeginum 1. sept. fór ég og fósturmamma mín að horfa á Súmó æfingu, en það er mjög sjaldan að fólk fær að gera það, svo ekki margir hafa gert það og því er þetta frábært mont efni!
Vöknuðum snemma fórum af stað. Hlakkaði gríðarlega til að sjá þetta, því að það er mjög áhugavert að horfa á feita kalla í bleyju slást.
Þegar ég labbaði inn í súmó herbergið (þar sem þeir æfa), sá ég 10 feita og sveitta Japana æfa sig, sumir voru í súmó hringnum að æfa tækni, sumir voru að gera æfingar og aðrir gláptu á bleyjuðu kallana í súmó hringnum.
Ég verð þó að viðurkenna að eftir þessa upplifunm breyttist viðhorf mitt til súmó mikið. Þeir æfa harkalega og lengi á hverjum degi og hafa bara þriggja daga frí á hverjum degi! Þeir sem eru í neðstu "rönkunum" fá ekki að keppa á sjónvarpi og þurfa að vinna nokkur mót til að komast í sjónvarpsrankann, en þá fá þeir líka meira en eina milljón Yen á mánuði, sem er ekkert smáræði!
Eftir æfinguna, sem var ekkert smáræði, biðum við hellengi í herberginu, vegna þess að súmó kapparnir þurftu að sturta sig og búa til mat. Sat í lótus stellingunni heillengi og labbaði eins og þýsk, sextug götukona, eftir þetta. Hræðilegt!
Súmó kappar borða, á hverjum degi, rétt sem þeir kalla "Chanko". Þetta er samansafn af fitu- og prótínríkum mat. Afskaplega góður á bragðið og ég fékk mér 3 stóra diska, og líka hrísgrjón og tvær skálar af súpu. Súmir kapparnir voru hissa á svip.
Fékk að taka mynd með mér og fyrrverandi meistaranum í súmó. Hérna í Japan er ég frekar stór miðað við fólk, en þessi maður er risi.  En við tókum myndina saman og þegar ég leit yfir hana seinna fanst mér þessi maður minna mig svo mikið á Samma afa.
Fór heim saddur og ánægður. Klukkan 4, samdægurs, gerði ég mig til og fór með fósturmömmu minni á "Matsuri". Matsuri er í raun bara hátíð, en það er sérstök hátíð sem Japanir halda uppa. Yfirleitt er færanlegt shinto klaustur. Og það var! Ofsalega þungt! Ég hélt nánast allan tíman og fékk svo sannarlega að finna fyrir því daginn eftir, því axlirnar mínar voru að drepast!
Við löbbuðum með "klaustrið" í 4 klukkutíma, en tókum oft pásu, til að drekka vatn, eða bjór ef þú hefur aldur og sumir reyktu, æðislegt. Mjög gaman. Eftir það var okkur boðið upp á Körrí og hrísgrjón og ég át fimm diska, djöfull var ég svangur.

Ég veit ekki hvenær næsta blogg kemur út. Ég get þó sagt að það komi út í framtíðinni...

Stefnir Ægir

Ps. mer finst eins og bloggin styttist alltaf meira og meira, synd. 





No comments:

Post a Comment