Monday, July 2, 2012

Get eg radid einhvern i vinnu til ad bua til titla ?


Sæl og blessuð öll sömul :D

Já eins og þið hafið vonandi tekið eftir, er ég kominn med íslenska stafi núna. Ég er líka að skrifa þetta i tölvunni heima hjá mér. Get loksins fært öll gögn milli tölvunar heima og í skólanum, því ég er ekki með net heima.
Þvílík gleði, myndirnar komnar inn á netið og ég get bloggað heim :D
Það er nú samt skrítið að venjast íslenska lyklaborðinu aftur, þegar maður hefur pikkad a enskt lyklaborð í eina þrjá mánuði, svo þið fyrirgefið mér vonandi ef ég gleymi nokkrum eða geri skyssu.

Ímynd Japana áður en ég fór til Japan er heldur breytt eftir þriggja mánaða dvöl hérna. Þegar ég var ennþá á Fróni, rétt áðuren ég fór út, átti fólk það til að koma til mín og byrja að segja: "Konnichiwa", "Sayounara", "Hentai" og önnur orð a japönsku, og síðan byrjaði það að tala í tungum og froðufella. Auðvitad stóð ég brosandi og hlægjandi og sagði: "Já, hahaha. Flottur", en innan í mér var ég hægt að deyja. Þegar ég hugsa til baka finst mér þetta pínu fyndið, samt ekki. En auðvitað sögðu allir við mig að þjóðaríþrótt þeirra væri Karíókí, það er reyndar ekki alveg rétt, Súmó glíma er það, en ég verð þó að viðurkenna að ég var ekki alveg að treysta þessum sögum algerlega um karíókíið. Þetta er þó satt! Þeir stunda karíókíið af fullum krafti eða fullum hálsi. Þeir fara oft úr vinnunni á miðvikudagskvöldi, fara á barinn með drykkjufélugunum og fá sér einn eða tvo bjóra, sem er alveg nóg fyrir flesta Jalla til að detta vel í það. Eftir barinn er ferðinni heitið í karíókí stúdíóið. Þar leigja þeir herbergi, og geta sungið eins hátt og illa og þeir geta. Eftir öskrið drífa þeir sig heim, en á leiðinni finna sumir fyrir magapínu og allt kemur upp aftur. Lítil gjöf fyrir fólkið sem þarf að drífa sig í vinnunna og skólan daginn eftir. Á miðvikudagsmorgnum sé ég stundum góðar sléttur.  En aðallega á laugardagsmorgnum.
Súmó glíma er ekki jafn einföld og ég hélt fyrst, ég hélt að þetta væru tvær fitabollur sem ættu að reyna að fella hvort annað og sá sem fór niður fyrst tapaði. En nei ! Það þarf að flækja þetta eins og allt annað í heiminum.... Þeir þurfa að koma sér fyrir, og síðan standa upp, fara  út fyrir hringin, klóra sér í pungnum, þurrka ímyndaðan svita af enninu og kasta hveiti(Held ég) yfir hringinn og endurtaka nokkrum sinnum áður en bardaginn hefst, sem stendur vanalega í svona 10 sek. Þó að súmó glíma sé þjóðaríþrótt Japana er meistarinn þó mongólskur. Súmó er þó ekkki svo mikið stunduð, ég held aðallega vegna þess að Japanir eru svo litlir, eða hafa bara misst áhugan á því að knúsa annan mann í engum fatnaði fyrir utan brók sem felur varla neitt. Það kemur þér sennilega á óvart þegar ég segi þér að hafnarbolti er vinsælasta íþrótt Japana. Meiri að segja fyrir seinni heimsstyrjöld var þetta gríðarlega vinsæl íþrótt hérna.

Karate þjálfanir eru mjög harðar. Við mætum eftir skóla og klæðum okkur í "dogíið" (búningin), förum síðan niður í "dojoið" og náum i dýnurnar undir þjálfunina, (við notum mjög þunnar dýnur undir okkar svo að við meiðum okkur ekki í fótunum þegar við þjálfum) síðan er teygt á, og eftir það byrjar æfingin. Það fer eftir dögum hvað við gerum. Mánudaga erum við einir að þjálfa okkur, þriðjudögum kemur senpai sem er áttræður kall,  í fáranlega góðu formi, lítur út eins og hann gæti verið sextugur! Á miðvikudögum er engin æfing. Þriðjudaginn erum við einir að þjálfa aftur. Föstudagar kemur senpainn aftur, yfirleitt þjálfun tæknis þá, og hraða. Laugardagar eru skelfilegir! Þá kemur annar senpai (Senpai er japanskt orð yfir persónu sem er eldri og hefur meiri reynslu en þú í þessari ákveðnu grein), hann er yfirþjálfarinn okkar. Um fertugt. Karate þjálfunin er í 2 og hálfan tíma og við fáum okkur að drekka svona að meðaltali tvisvar yfir hverja æfingu, það skal tekið fram að hér er mjög heitt og rakt. Laugardags þjálfarinn er þó svo góð sál að leyfa okkur það ekki. Og síðan eru náttúrulega 50 armbeygjur á hnúunum. Þetta er nú samt gaman :D Og ég get ekki kvartað !

Dagarnir mínir hérna úti eru þétt setnir og þarf fólk því að panta mig langt fram í tíman til að gera eitthvad með mér, mánudagar er skóli og síðan karate, þá kem ég heim klukkan 7, þannig er það í ruan alveg fram að föstudag. Laugardagar eru aðeins betri, skóli til klukkan 12 og síðan drulluerfið karate æfing til klukkan 4. Miðvikudagar eru náttúrulega helgidagar líka, þá er tvöfaldur japönsku tími og síðan hádegismatur í boði Nónaka sensei, þá förum við í bakaríið þar sem við segjum hvort öðrum dónabrandara og flissum eins og smástelpur. Öðrum til mikilla gremju, hver vill sjá sextugan mann bjóða 18 ára strák hádegismat, svo þeir geti sagt hvort öðrum groddalega brandara? Það er gott að það skilji svona fáir ensku hérna, það hefði ábyggilega margur maðurinn spýtt úr sér kaffinu, skorið af sér eyrun og gerst múnkur hefði þeir skilið okkur.

Á dögunum barst mér agalega flottur pakki frá Íslandi, þar var meðal afmælisgjöf og nammi, það var engin önnur en hún Eyrún mín sem sendi þann pakka. Agalega kom það sér vel :D Takk Eyrun mín, og Magnús og Magnús.
Og ekki seinna en fyrir nokkrum dögum fékk ég annan,  þessi kom frá mömmu og pabba og Stimma, og þar var engin annar en Bubbi sjálfur og auðvitað nammi ! Þakka ykkur kærlega :D

Sumarfríið er alveg handan við hornið, það er að vísu að öðruvísi sniði en á Íslandi. Það byrjar hérna í miðjum júlí, eftir prófin og er fram í september. Það verður svo sannarlega mikið á minni könnu þegar það byrjar. Karate æfingar á hverjum degi fyrir utan helgarnar. Heimsókn í uppeldisþorp foreldra minna, AFS búðir í Oshima, sem er eyja þar sem 20 AFS nemar sem eru í Tokyo og þar nálægt koma saman, þar verða líka krakkar úr menntaskóla til að gera þetta eitthvad skemmtilegra, og síðan er auðvitað ferðinni heitið í fjallaklifur. Mt. Fuji bíður eftir mér. Sumarið verður heitt en ábyggilega mjög fljótt að líða, því ég hef nóg að gera. Skrítið að fara ekki að vinna í sumarfríinu. En það verður nóg að vinna þegar ég kem til Íslands aftur.

Mér líður mjög vel hérna úti, það eru allir mjög vingjarnlegir, en halda sig mest af öllu við sinn klúbb. Bekkurinn minn er mjög fínn, 40 krakkar, fyrir utan mig. Alltaf í matarpásunum fer ég og nokkrir aðrar strákar að gera einhverja íþrótt, núna er blak, það er mjög gaman!
Í skólanum eru margir gamlir kennarar, og sá elsti er 67 ára. ´í Waseda fara kennarar á eftirlaun 70 ára. Það er ekkert merkilegt við þennan kennara annað en það að hann er algjörlega kolvitlaust helvíti! Hann er fótbolta kennari, ég ætla ekki að nefna hann á nafn, það væri grimmilegt. Hann kennir mér meðal annars fótbolta, ef það má yfirhöfuð kalla þetta fótbolta. Hann er lítill, hokinn í bakið, ljótur í framan og með blátt hár. Algjört sjarmatröll! Fyrir utan það að vera svona fallegur og skemmtilegur er hann kóngur dónabrandara, hann á það til að draga einn strák úr hópnum meðan hann er að "kenna" og segja honum dónabrandara, á meðan hinir krakkarnir vorkenna greyinu sem þurfti að þola það að hlusta á hann og þykjast hlægja og jánka þegar það á við. Þegar við förum niður á völlinn, stillum við okkur allir upp í röð og þá skráir hann hverjir eru mættir og hverjir ekki, síðan byrjar ballið. Það eina sem þessi "kennari" hefur reynt að "kenna" okkur yfir önnina er hvernig maður á að sparka bolta. Alltaf það sama. Hvernig maður á að sparka í bolta. Náðuð þið þessu? Hann er að kenna 16 ára piltum hvernig maður sparkar í bolta. Hann biður okkur koma að sér, velur einn úr hópnum, sparkar boltanum til hans og biður hann svo sparka boltanum að sér, en ef það er ekki gert nákvæmlega eins og hann vill þá fær hann að heyra hvað hann er ömurlegur og kennarinn hlær. Honum finst hann vera svo fyndinn þegar hann gerir lítið úr öðrum. Og það leiðinlega er, hann kann ekki að sparka í bolta sjálfur. Hann reynir og reynir en boltan fer alltaf í öfuga átt en hann ætlar, maðurinn er algjör hryllingur. Ég er ekki frá því að vangefin api með báðar lappir brotnar gæti sparkað bolta fastar og með meiri nákvæmni en þetta barn í of krumpuðum líkama. Hann fær frekjuköst ef krakkarnir gera ekki nákvæmlega eins og hann vill og ég hugsa í raun bara um það þegar krakkar benda á eitthvað í bónus sem mamma nennir ekki að kaupa, krakkarnir taka þá til sinna ráða og byrja að öskra og væla. Hann er nákvæmlega eins, nema það að hann er krumpaður gamall kall.

Þetta var pínu sem er að gerast í mínu lífi, ég vona að þið höfðuð gaman af þessu :D

Stefnir Ægir Stefánsson.


1 comment:

  1. HAHAHA ég hló mikið af þessu!
    Sérstaklega með krumpaða kennarann!
    Díses ekki láta það fara of mikið í taugarnar á þér Stefnir. Og haltu áfram að skemmta þér :) ;*
    - Ísfold

    ReplyDelete